Aldís kærir lögreglumann vegna vottorðs

Jón Baldvin ræddi um ásakanirnar sem hann hefur verið borinn …
Jón Baldvin ræddi um ásakanirnar sem hann hefur verið borinn í Silfrinu. Skjáskot/Rúv

Aldís Schram hefur lagt fram kæru á hendur Herði Jóhannessyni aðstoðarlögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu vegna ætlaðs brots á þagnarskyldu og mögulegs brots á öðrum ákvæðum almennra hegningarlaga.

Aldís greinir frá þessu á Facebook-síðu sinni og lætur fylgja ljósmynd af kærunni sem send hefur verið til héraðssaksóknara. Þar segir að tilefni kærunnar séu blaðaskrif og fjölmiðlaframkoma Jóns Baldvins Hannibalssonar, föður hennar, þar sem hann haldi því fram að hann hafi vottorð um afskipti lögreglu af henni og aðkomu Jóns Baldvins og Bryndísar Schram að þeim, undirritað af Herði.

Í kærunni segir að ætla megi að vottorð af því tagi sem Jón Baldvin lýsi í fjölmiðlum brjóti í bága við þagnarskylduákvæði lögreglulaga, auk þess sem ástæða sé til þess að rannsaka hvort umræddur lögreglumaður hafi gefið vottorðið út í ávinningsskyni, sem gæti varðað við hegningarlög.

Jón Baldvin hefur staðið í ströngu undanfarnar vikur við að verjast ásökunum Aldísar dóttur sinnar um kynferðisbrot og að hann hafi beitt valdi sínu til þess að siga á hana lögreglu og látið vista hana á geðdeild.

Í aðsendri grein í Morgunblaðinu 7. febrúar vísar hann í vottorð frá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu sem hann segir svohljóðandi:

„Lögreglan hefur nokkrum sinnum á undanförnum árum haft afskipti af Aldísi Baldvinsdóttur (kt. 210159-4449) eða sinnt verkefnum vegna hennar. Að gefnu tilefni skal tekið fram, að foreldrar hennar, Bryndís Schram og Jón Baldvin Hannibalsson, hafa aldrei kallað á lögreglu eða beðið lögreglu um aðstoð af neinu tagi hennar vegna. Þetta staðfestist hér með.“ [Undirskrift: Hörður Jóhannesson aðstoðarlögreglustjóri.]

Þá vísaði hann í sama vottorð í viðtali í Silfrinu á RÚV 3. febrúar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert