Hóta að stefna RÚV

Jón Baldvin Hannibalsson fyrrverandi ráðherra og Bryndís Schram.
Jón Baldvin Hannibalsson fyrrverandi ráðherra og Bryndís Schram. mbl.is/Ómar Óskarsson

Jón Baldvin Hannibalsson og Bryndís Schram skrifa opið bréf til útvarpsstjóra í Morgunblaðinu í dag þar sem þau gefa honum, starfsmönnum RÚV og viðmælendum viku til að biðjast afsökunar annars verði þeim stefnt. 

Í bréfinu segjast þau ætla að stefna Magnúsi Geir Þórðarsyni útvarpsstjóra, fyrir hönd Ríkisútvarpsins, og starfsmönnum hans, sem og viðmælendum, fyrir rétt, til þess að fá meiðyrði, ranghermi og tilhæfulausar ásakanir, dæmdar dauðar og ómerkar. Og að Ríkisútvarpinu verði skylt að bæta þolendum þessarar ófrægingarherferðar það tjón, sem þau hafa orðið fyrir af völdum RÚV.

Í bréfinu saka þau dagskrárgerðarmenn RÚV um tilhæfulausar ásakanir, rangar fullyrðingar og ærumeiðandi ummæli á opinberum vettvangi. 

„Spyrja má, hvernig áheyrendur geti myndað sér fordómalausa skoðun á umfjöllunarefni, ef fréttamenn bjóða þeim bara upp á einhliða frásögn annars deiluaðila; velja það eitt til birtingar úr gögnum máls, sem hentar fyrirframgefinni niðurstöðu; stinga undir stól gögnum, sem sanna, að fréttamaður og/ eða viðmælandi fer með rangt mál; eða ef fréttamaður hunsar vottfestan framburð vitna?“ segir í bréfi þeirra hjóna sem hægt er að lesa í Morgunblaðinu í dag.

Greinina má í heild lesa hér að neðan:

Ágæti útvarpsstjóri.

Við undirrituð vekjum athygli yðar á því, að starfsmenn yðar, dagskrárgerðarmenn við Rás 2, þeir Sigmar Guðmundsson og Helgi Seljan, hafa í tvígang að undanförnu farið með tilhæfulausar ásakanir, rangar fullyrðingar og ærumeiðandi ummæli á opinberum vettvangi. Fyrst í viðtali á Rás 2 fimmtudaginn 17. janúar og aftur í sjálfsvarnaræfingu í Morgunblaðinu föstudaginn 8. febrúar sl.

Fréttamennirnir fullyrða, að þeir séu „ekki ábyrgir fyrir orðum viðmælenda sinna...“ Sé það rétt, þá hlýtur að vakna sú spurning, hvort þeir megi þá að ósekju lepja upp slúður, gróusögur, persónuníð eða aðra illmælgi – í útvarpi allra landsmanna? Og fá níðið niðurgreitt hjá skattgreiðendum. Það væri þá bara á ábyrgð þeirra, sem ljúga að þeim. Eruð þér, herra útvarpsstjóri, sammála þessari starfslýsingu handa fréttamönnum Ríkisútvarpsins?

Þessa dagana er mikið rætt um, að stofnanir og fyrirtæki ættu að setja sér siðareglur. Blaðamannafélag Íslands hefur sett sér slíkar reglur. Ríkisútvarpið, sem þér stýrið, hefur ekki talið það nægja og hefur því sett sér ennþá viðameiri siðareglur. Má ekki treysta því, hr. útvarpsstjóri, að þessar siðareglur séu ekki bara settar til að sýnast? Er ekki til þess ætlast, að fréttamenn haldi þær í heiðri?

Í siðareglum Blaðamannafélags Íslands segir: (4. grein) 1 „Í frásögnum af dóms- og refsimálum skulu blaðamenn virða þá meginreglu laga, að hver maður er talinn saklaus, þar til sekt hans hefur verið sönnuð.“

Í sömu reglum (3. grein) segir: „Blaðamaður vandar upplýsingaöflun sína, úrvinnslu og framsetningu, svo sem kostur er, og sýnir fyllstu tillitssemi í vandasömum málum. Hann forðast allt, sem valdið getur saklausu fólki, eða fólki, sem á um sárt að binda, óþarfa sársauka eða vanvirðu.“

Siðareglur – til sýnis?

Spyrja má, hvernig áheyrendur geti myndað sér fordómalausa skoðun á umfjöllunarefni, ef fréttamenn bjóða þeim bara upp á einhliða frásögn annars deiluaðila; velja það eitt til birtingar úr gögnum máls, sem hentar fyrirframgefinni niðurstöðu; stinga undir stól gögnum, sem sanna, að fréttamaður og/ eða viðmælandi fer með rangt mál; eða ef fréttamaður hunsar vottfestan framburð vitna?

Eins og sýnt verður fram á hér á eftir, hafa umræddir fréttamenn vanrækt að afla staðfestra upplýsinga eða kanna sannleiksgildi fullyrðinga viðmælanda síns, þrátt fyrir að þær upplýsingar hafi sannanlega verið auðsóttar. Þaðan af síður hafa þeir forðast að valda saklausu fólki, „sem á um sárt að binda, óþarfa sársauka eða vanvirðu“. Skaðinn, sem þeir hafa valdið er skeður, þótt hann sé vandmetinn til fjár.

Í reiðilestri sínum í Morgunblaðinu 8. febrúar sl. saka þeir mig (JBH) um fordóma gagnvart geðfötluðum. Ég hef hvergi látið mér neitt slíkt um munn fara. En sem foreldri einstaklings, sem greind hefur verið með geðhvarfasýki, lítum við á þetta sem enn ein meiðyrðin af þeirra hálfu. Ég hef hins vegar vitnað í greiningu viðurkenndra sérfæðinga (t.d. dr. Jamison, Bressert, Engilbert Sigurðsson o.fl.) um þekkt sjúkdómseinkenni geðhvarfasýki, svo sem oflæti, trúarofstæki, kynlífsþráhyggju o.fl. Þetta flokkast ekki undir fordóma heldur fræðilegt mat og niðurstöður rannsókna. Geðhvarfasjúklingur í maníu er almennt séð ekki talinn ábyrgur orða sinna eða gerða, heldur er hann talinn þarfnast umönnunar og læknishjálpar.

En hvað um starfsmenn yðar, dagskrárgerðarmenn á RÚV? Þeir hafa a.m.k. hingað til verið taldir vera með fullu viti. En eru þeir samt sem áður, að þeirra eigin áliti og yðar, hvorki ábyrgir orða sinna né gerða? Mega þeir umvöndunarlaust bera á borð, að óathuguðu máli, tilhæfulausar ásakanir, rangar fullyrðingar og gróf meiðyrði?

14 falsfréttir

Hér fer á eftir stutt upptalning á tilhæfulausum ásökunum, röngum fullyrðingum og grófum meiðyrðum, sem umræddir fréttamenn báru á borð fyrir hlustendur sína á Rás 2 í viðtalsþætti sínum við Aldísi Schram hinn 17. jan. sl.:

1) „Aldís sakaði föður sinn um kynferðisbrot 1992“. Ósatt. Sjá Mannlífsviðtal í feb. 1995

2) Hótun dóttur um að kæra föður „veldur því að hún er lokuð á geðdeild í mánuð“. Ósatt. Sjá lög og reglur um nauðungarvistun.

3) „Í hvert sinn sem kastaðist í kekki við föður“...„sigaði (hann) ávallt á hana lögreglu“. Ósatt. Sjá lögregluvottorð og reglur um nauðungarvistun.

4) „Sem utanríkisráðherra og sendiherra gat hann hringt í lögreglu, og þar með var ég handtekin...og færð í járnum upp á geðdeild.“ Ósatt. Sjá lögregluvottorð og reglur um nauðungarvistun.

5) Bréfsefni sendiráðs sýnir, að „það er því hafið yfir vafa, að hann reyndi að misnota aðstöðu sína...“ og „afskipti af Aldísi skráð sem aðstoð við erlent sendiráð“. Það getur enginn, hvorki sendiherra, né ráðherrar, né neinir aðrir, látið nauðungarvista aðra manneskju. Sjá reglur um nauðungarvistun. Lögregla ber ein ábyrgð á rangri skráningu í sína skýrslu. Algert aukaatriði.

6) Að JBH hafi „látið nauðungarvista hana í enn eitt skiptið“ eftir Washington-heimsókn 2002. Rangt. Sjá frásögn um atbeina félagsþjónustu og tilsjónarkonu vegna öryggis dóttur.

7) Hótun foreldra: „Ef ég tæki ekki til baka ásökun mína um kynferðisbrot JBH...myndu þau láta loka mig inni“. Ósatt. Sjá reglur um nauðungarvistun.

8) „Tveir lögreglumenn, ef ekki þrír, ryðjast inn...“ Sjá lögregluvottorð. JBH og BS aldrei leitað til lögreglu vegna Aldísar.

9) „Þegar barnið er tekið frá mér, verð ég ær“ – Skýring: Gert með atbeina umsjónarkonu og barnaverndarnefndar er barni komið í fóstur, á meðan móðir er vistuð á sjúkrastofnun.

10) „Nauðungarvistun fór heldur ekki fyrir dóm, eins og bar að gera“: Sjá viðtal við yfirlækni geðdeildar Landspítalans á mbl.is um starfsreglur um nauðungarvistun.

11) Sigmar: „Í hvert skipti sem þessi umræða kemur upp, ert þú nauðungarvistuð? – Aldís: Já, í sex skipti, ef ég man rétt.“ Ósatt. Sjá reglur um nauðungarvistun og lögregluvottorð.

12) „Vissi ekki af greiningu fyrr en 2013.“ Ósatt. Skilgreind geðfötluð að eigin frumkvæði hjá TR árum saman, vegna örorkubóta.

13) „Þá er ég bara sprautuð niður um leið eða látin taka lyf.“ – Sjá starfsreglur geðdeildar Landspítalans um framlengingu vistunar og lyfjatöku, sbr.viðtal við yfirlækni geðsviðs á mbl.is.

14) Að JBH hafi „framið sifjaspell, þegar hún (hver?) var fullorðin kona“. Óskiljanleg meiðyrði.

Tekið skal fram, að þessi listi yfir 14 tilhæfulausar ásakanir, ranghermi og meiðyrði, er ekki tæmandi.

Sorpblaðamennska – á kostnað skattgreiðenda?

Við þetta er svo því að bæta, að þeir Sigmar og Helgi fullyrða í áðurnefndri grein í Morgunblaðinu, að í áratugi hafi Aldís „mátt þola þöggun og útskúfun út af meintum veikindum sínum“. Þetta er rangt, eins og nánast allt annað sem frá þeim hefur komið um þessi mál, sbr. viðtal ásamt birtingu lögreglukæru Aldísar í DV (27.- 29. september 2013) – sem að vísu var vísað frá sem ómarktækri – og forsíðuviðtal við DV (11.-13. október 2013).

Við undirrituð leyfum okkur að vekja athygli yðar, hr. útvarpsstjóri, á þessum málabúnaði starfsmanna yðar. Það má heita að viðtal þeirra tvímenninga á Rás 2 sé einn samfelldur ósannindavaðall. Þótt flestar hinna ósönnu fullyrðinga séu hafðar eftir viðmælanda þeirra er það eftir sem áður staðreynd að oftar en einu sinni gera þeir þessar fullyrðingar að sínum. Því til viðbótar liggur ljóst fyrir að hefðu fréttamennirnir haft fyrir því að rannsaka málið með því að staðreyndaprófa fullyrðingar eða afla auðfáanlegra upplýsinga hjá viðkomandi aðilum hefðu þeir getað séð sóma sinn í að forðast að fara með allt þetta fleipur frammi fyrir áheyrendum.

Vitað er, að illmælgi, persónuníð og annar óhróður ríður víða húsum á samfélagsmiðlum. Einnig er það þekkt, bæði hér á landi og annars staðar, að svokölluð sorpblöð byggja beinlínis fjárhagslega afkomu sína á því að selja óhróður um fólk sem einatt er hafður eftir ónafngreindum persónum – áður kallað gróusögur. En af sjálfu leiðir að þorri almennings lærir smám saman, að fenginni reynslu, að taka mátulega lítið mark á slíkum miðlum. En við viljum trúa því, að öðru máli gegni um sjálft Ríkisútvarpið – útvarp allra landsmanna – sem hingað til hefur talist vera ein helsta menningarstofnun þjóðarinnar. Við viljum mega trúa því, að Ríkisútvarpið okkar vilji standa undir þeirri nafngift, í orði og verki.

Hvað er þá til ráða, hr. útvarpsstjóri?

Í ljósi þess, sem að framan er sagt, skorum við hér með á yður, hr. útvarpsstjóri, að þér, f.h. Ríkisútvarpsins, dragið til baka allar þessar tilhæfulausu ásakanir, röngu fullyrðingar og meiðyrði starfsmanna yðar, sem hér hafa verið tilgreind og takið af tvímæli um, að þau skuli skoðast sem dauð og ómerk.

Einnig væri við hæfi, að þér gæfuð áðurnefndum fréttamönnum alvarlega áminningu fyrir gróf brot á siðareglum Ríkisútvarpsins, svo sem gert er ráð fyrir í siðareglunum sjálfum.

Þá væri og við hæfi að biðja áheyrendur Ríkisútvarpsins afsökunar á óboðlegum vinnubrögðum umræddra fréttamanna um leið og því væri heitið að óþolandi misnotkun á fjórða valdi Ríkisútvarpsins yrði ekki liðin framvegis.

Við þykjumst vita að útvarpsstjóri eigi annríkt og hafi í mörg horn að líta við stjórnun svo viðamikillar og fjölmennrar stofnunar. Þess vegna þykir okkur viðeigandi að sætta okkur við sjö daga bið fyrir yður að bregðast við þessu erindi.

En ef þér, hr. útvarpsstjóri, kjósið að bregðast ekki við þessari áskorun okkar, áskiljum við okkur allan rétt til að stefna yður, fyrir hönd Ríkisútvarpsins, og starfsmönnum yðar, sem og viðmælendum, fyrir rétt, til þess að fá meiðyrði, ranghermi og tilhæfulausar ásakanir, dæmdar dauðar og ómerkar. Og að Ríkisútvarpinu verði skylt að bæta þolendum þessarar ófrægingarherferðar það tjón, sem þau hafa orðið fyrir af völdum RÚV.

Virðingarfyllst.

P.s.Við undirritum þetta opna bréf bæði, þar sem fjölskylda okkar – ekki bara við sjálf – hefur beðið óbætanlegt tjón af völdum tilefnislausra ásakana, ranghermis og meiðyrða í umfjöllun fréttamanna RÚV.

Jón Baldvin Hannibalsson (kt. 210239-3249). Bryndís Schram (kt. 090738-8289)

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert