Létu draga 200 bíla í burtu

Lögreglan segir að nýlega hafi þurft að draga þennan bíl …
Lögreglan segir að nýlega hafi þurft að draga þennan bíl í burtu, en enginn viðvörunarþríhyrningur var settur upp og engin viðvörunarljós. Þá náðist ekki í eiganda og var bíllinn því dreginn burt með dráttarbifreið með þeim kostnaði og óþægindum sem því fylgir. Ljósmynd/Lögreglan

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu þurfti að láta fjarlægja hátt í 200 ökutæki með dráttarbifreið á síðasta ári þar sem þau höfðu verið skilin eftir og sköpuðu hættu og óþægindi fyrir umferð. Þegar þörf er á að skilja ökutæki eftir í vegkanti er nauðsynlegt að koma upp viðvörunarbúnaði og fjarlægja hann eins fljótt og auðið er. Ef staðsetningin er mjög hættuleg þarf einnig að láta lögregluna vita. Lögreglan greinir frá þessu á Facebook-síðu sinni.

Bent er á að ef ökutæki séu skilin eftir vegna ófyrirsjáanlegra atvika, svo sem vegna bilunar eða tjóns, þá skipti öryggið máli. Ökumenn eiga að setja upp viðvörunarþríhyrning, ræsa viðvörunarljós bifreiðar og svo fjarlægja bílinn eins fljótt og auðið er.

Ef staðsetning er mjög hættuleg er nauðsynlegt að tilkynna lögreglu um atvikið, staðsetningu með upplýsingum um að ökutækið verði tafarlaust brottflutt eða eftir atvikum óska eftir aðstoð lögreglu gegnum 112. Segir lögreglan að mörg slys hafi átt sér stað þar sem ekið var á yfirgefna bíla á stofnbrautum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert