Næsta lægð í febrúarsyrpunni

Það er enn talsvert rót á spám og vissara að …
Það er enn talsvert rót á spám og vissara að gera ekki langtímaplön um ferðalög eða útivist án þess að fylgjast með veðurspám. mbl.is/Hari

Næsta lægð í febrúarsyrpunni kemur upp að austanverðu landinu síðdegis og má búast við úrkomu af öllum tegundum þar, rigningu við suðausturströndina og á Austfjörðum en slyddu eða snjókomu til fjalla og inn til landsins. Síðdegis bætir í ofankomuna og dregur þá líka verulega úr skyggni. Vestan til er tíðindaminna og ætti að sjást aðeins til sólar, að því er segir í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

„Á morgun eru líkur á éljum í flestum landshlutum en rofar til austanlands og svo er útlit fyrir áframhaldandi lægðagang og umhleypingar um og eftir helgi. Það er enn talsvert rót á spám og vissara að gera ekki langtímaplön um ferðalög eða útivist án þess að fylgjast vel með þróuninni,“ segir í hugleiðingum á vef Veðurstofunnar.

Á vef Vegagerðarinnar segir að milt veður sé um allt land og vetrarfærð á vegum, hálka, hálkublettir og snjóþekja. Verið er að hreinsa alla helstu leiðir sem eru í þjónustu í dag. 

Veðurspá fyrir næstu daga

Breytileg átt, 3-10 m/s en suðvestan 8-15 austan til í fyrstu. Skýjað með köflum eða léttskýjað en þykknar upp og fer að rigna á Austfjörðum og Suðausturlandi með morgninum en slydda eða snjókoma til fjalla. Dregur úr úrkomu um tíma eftir hádegi. Rigning á láglendi austan til síðdegis, en snjókoma inn til landsins og él á Vestfjörðum. Suðvestanstrekkingur og él í flestum landshlutum í nótt og á morgun en styttir upp og léttir til á Austurlandi. Frost 0 til 5 stig, en hiti 0 til 5 stig við suður- og suðausturströndina.

Á fimmtudag og föstudag:

Suðlæg eða breytileg átt og 5-13 m/s og víða él, en lengst af þurrt um landið norðaustanvert. Frost 0 til 6 stig, en hiti 0 til 4 stig við suðurströndina. 

Á laugardag:
Fremur hæg austlæg átt og lengst af bjart í veðri en gengur í austan og norðaustan 8-15 m/s sunnan og vestan til um kvöldið og slydda eða snjókoma við suðurströndina. Frost 0 til 12 stig, kaldast í innsveitum norðan til en hiti yfir frostmarki syðst um kvöldið. 

Á sunnudag:
Austan- og norðaustanátt. Snjókoma norðan- og austanlands en annars þurrt að mestu. Dálitlar skúrir syðst um kvöldið en styttir að mestu upp norðaustan til. Hiti um frostmark, en vægt frost til landsins. 

Á mánudag:
Útlit fyrir allhvassa norðanátt með éljum um landið norðanvert en bjartviðri syðra. Frost 2 til 10 stig. 

Á þriðjudag:
Vaxandi suðaustanátt með slyddu og síðar rigningu í flestum landshlutum og hlýnandi veður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert