Ósátt við „vitleysishækkun“

Landsbankinn í Austurstræti í Reykjavík.
Landsbankinn í Austurstræti í Reykjavík. mbl.is/Golli

„Þegar ákvörðun um þessa launahækkun var tekin lá fyrir að erfiðar kjaraviðræður væru fram undan. Auðvitað eiga menn að halda í sér,“ segir Friðbert Traustason, framkvæmdastjóri Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja.

Tíðindi af launahækkunum Lilju Bjarkar Einarsdóttur, bankastjóra Landsbankans, hafa mælst illa fyrir í þjóðfélaginu, en laun bankastjórans hafa hækkað um 82% á skömmum tíma. „Allar svona vitleysishækkanir setja strik í kjaraviðræður,“ segir Friðbert.

Bankasýsla ríkisins sendi í gær bréf til bankaráðs Landsbankans hf. og stjórnar Íslandsbanka hf. þar sem óskað er eftir upplýsingum um launamál bankastjóra þeirra, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, skrifaði stjórnum fyrirtækja í ríkiseigu í gær og bað um að þær upplýsi ráðuneytið um hvernig brugðist var við tilmælum sem ráðuneytið sendi stofnunum í janúar 2017 og voru síðan ítrekuð um að gæta varkárni við launaákvarðanir. Erindið var líka sent til Bankasýslu ríkisins.

VM Félag vélstjóra og málmtæknimanna hefur krafist þess að laun bankastjóra Landsbankans verði lækkuð tafarlaust. „Það er ekki boðlegt að sífellt skuli vera slegið á putta almenns launafólks á Íslandi á meðan þeir hæst launuðu skammta sér launahækkanir upp á hundruð þúsunda eða milljónir í hverjum mánuði,“ segir í yfirlýsingu VM.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert