Sammála um taktleysi launahækkana

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra spyr hvort stjórnir banka í ríkiseigu hafi …
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra spyr hvort stjórnir banka í ríkiseigu hafi ekki verið að fylgjast með því sem er að gerast í kjaramálum í landinu. mbl.is/Eggert

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segist sammála Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra um taktleysi stjórnar Landsbankans varðandi nýlegar launahækkanir bankastjórans. „Það er erfitt að sjá annað en að þau tilmæli sem voru send í upphafi árs 2017 hafi nánast verið höfð að engu,“ sagði Bjarni á Morgunútvarpinu á Rás 2 og vísaði þar til starfskjarastefnu stjórnvalda um að laun skuli vera hófleg og samkeppnishæf.

„Það er nú kannski helsta ástæða þess að við erum að senda erindi á bankasýsluna og stjórnir að rifja það upp að við höfum átt þetta samtal áður.“

Lagabreyting hafi verið gerð um mitt ár 2017 á þann veg að stjórnir fengu á ný samningsumboð við forstjóra, sem áður höfðu heyrt undir kjararáð og þar með sumir lækkað í launum. „Það má segja að vandi stjórnanna hafi að hluta til birst í því að margir forstjóranna höfðu verið lækkaðir í launum sem sumir hverjir voru með gildan samning sem hafði verið vaðið inn í með lagabreytingu. Síðan eru þeir með þessi almennu skilaboð um að laun forstjóranna kallist á við það sem gengur og gerist, en þó þannig að menn gæti hófsemi og varkárni og séu alls ekki leiðandi í launamyndun.“

Taki ekki stór stökk sem valdið geta óróa

Segir Bjarni þetta vera rakið í bréfinu, en einnig minnt á að það séu viðkvæmir tímar á vinnumarkaði og þess vegna sé þess sérstaklega getið að menn séu ekki að taka stór stökk sem geta valdið óróa. „Það er svona í þessu ljósi sem maður er afar óhress með það sem manni hefur birst í þessum tölum.“

Sjálfur telji hann þó sanngjarnt, rétt og eðlilegt að leyfa mönnum skýra mál sitt og bendir á að stjórnvöld hafi áður í einstaka tilvikum átt í samskiptum við stjórnir vegna launaákvörðunar þeirra. „Það þarf að skoða hvert og eitt tilvik varðandi breytingar,“ sagði Bjarni og benti á að mikilvægt væri að skoða hver launaþróun viðkomandi forstjóra eða bankastjóra hefði verið yfir lengra tímabil. Þannig þurfi líka að skoða hver staðan væri í dag hjá þessum forstjórum, hefði ríkið ekki gripið inn í.

Laun Landsbankastjóra lægri en hinna tveggja stóru bankanna

Spurður hvort að ekki sé sérstakt að bankasýslan sé að óska eftir upplýsingum um laun bankastjóranna, sem liggja eigi fyrir í ársreikningum, kvaðst Bjarni telja það eðlilegt. Ársskýrsla veiti ekki endilega fulla yfirsýn, til að mynda kunni að hafa komið til ný eða tímabundin verkefni sem leitt hafi til frekari þóknana sem útskýra þurfi sérstaklega. „Það er eðlilegt að Bankasýslan felli ekki dóma byggða á ársskýrslum,“ sagði Bjarni en kvaðst þó ekki telja útilokað að Bankasýslan hefði átt að spyrja þessara spurninga fyrr.

Þá vakti ráðherra athygli á því að Landsbankinn, sem mikið hefur verið til umræðu undanfarið, virðist þrátt fyrir allt greiða lægstu launin til bankastjóra þegar horft er til stóru bankanna þriggja. Rétt sé því að taka þetta skref fyrir skref. „Aðalatriðið í þessu er að við ætlumst til þess að menn séu að ganga í takt og beri eitthvert skynbragð á það hvað er að gerast í samfélaginu,“ sagði Bjarni.

„Ég tek auðvitað eftir því að stjórn og forstjóri Íslandsbanka virðast hafa gert sér grein að þeir hafi verið komnir út fyrir einhver mörk og þar hafi verið gerðar breytingar til lækkunar, jafnvel þó að það sé ekki annað hægt að segja en að kjörin séu mjög rífleg í því tilviki,“ bætti hann við.

Eðlilegt sé að samskiptin séu með þeim hætti að bréf sé sent á stjórnir líkt og gert var nú. „Að maður einfaldlega spyrji, það var búið að senda út tilmæli og þið hafið jú verið að fylgjast með. Eru ekki allir búnir að taka eftir því sem er að gerast í kjaramálum í landinu og erum við ekki sammála um  mikilvægi þess að við getum fengið niðurstöðu í þau mál þannig að það þjóni hagsmunum allra Íslendinga? Eru einhverjar skýringar á því sem við sjáum núna um kjaraþróun, að þrátt fyrir að menn hafi verið beðnir um að fara varlega hafi laun verið hækkuð um tugi prósenta?“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert