Svara tilboði SA á föstudaginn

Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness.
Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness. mbl.is/​Hari

„Við tókum við þessu tilboði og tjáðum Samtökum atvinnulífsins það að við myndum koma með viðbrögð við þessu og lögðum til fundartíma næsta föstudag,“ segir Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, í samtali við mbl.is.

Fundað var í morgun í kjaradeilu félagsins, Eflingar, VR og Verkalýðsfélags Grindavíkur við Samtök atvinnulífsins í húsakynnum ríkissáttasemjara þar sem SA lagði fram tilboð til lausnar deilunni. Vilhjálmur segir innihald tilboðsins bundið trúnaði að ósk ríkissáttasemjara en það verði einfaldlega skoðað, tekin afstaða til þess og hún síðan kynnt SA á föstudaginn. 

„Við annars ítrekuðum það við Samtök atvinnulífsins að það liggi algerlega fyrir núna að stjórnvöld verði að spýta hressilega í lófana varðandi það sem lýtur að þeim. Okkar markmið er að auka ráðstöfnunartekjur okkar fólks sem er í lægri tekjustigunum og það er hægt að gera það á margvíslegan hátt. Meðal annars með ýmsum breytingum sem lúta að stjórnvöldum.“

Vilhjálmur segir að allt hangi þetta þannig saman og rosalega erfitt sé að svara því hvernig kjaradeilan fari að lokum. Hvort það komi til þess að viðræðurnar slitni í næstu viku eða hvort hægt verði að þróa áfram eitthvert samtal og leysa deiluna án átaka en þar skipti aðkoma stjórnvalda gríðarlegu máli. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert