Sýna ekki að launin hafi verið greidd

Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar.
Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar. mbl.is

„Við sjáum enga ástæðu til þess að rengja frásögn þessara manna. Það stendur einfaldlega,“ segir Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar, í samtali við mbl.is um rúmenska starfsmenn starfsmannaleigunnar Menn í vinnu ehf., en grunur er um að mennirnir hafi verið í nauðungarvinnu hjá fyrirtækinu og eru mál þess til skoðunar hjá Vinnumálastofnun.

Forsvarsmenn starfsmannaleigunnar hafa sakað rúmensku starfsmennina um lygar og fullyrt að þeir hafi fengið laun sín greidd. Þeir hafi sent gögn til Eflingar sem staðfesti það. Viðar staðfestir að fyrirtækið hafi sent ýmis gögn til stéttarfélagsins en þau sanni hins vegar ekki að mönnunum hafi verið greidd laun og breyti engu um gildi frásagnar mannanna.

„Ég get staðfest það að fyrirtækið hefur sent okkur alls konar gögn. Þessi gögn eru hins vegar þannig í fyrsta lagi að það er engin leið til þess að átta sig á því hvort þau séu í raun trúverðug. Þau hafa fullyrt að mönnunum hafi verið greidd laun og hafa sent okkur sínar eigin samantektir í Excel-skjölum úr þeirra tölvum,“ segir Viðar og bætir við:

„Þetta eru ekki kvittanir úr einkabanka sem sýna að launin hafi raunverulega verið greidd eða neitt slíkt. Síðan hefur okkur verið sent afrit af samskiptum forsvarsmanna fyrirtækisins við starfsmenn sem ég tel afar líklegt að brjóti hreinlega í bága við persónuverndarlög að senda á þriðja aðila.“ Málið sé annars í hefðbundnu ferli hjá félaginu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert