„Þetta er allt leysanlegt“

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR.
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR. mbl.is/​Hari

„Við munum fara yfir þetta tilboð og erum að fara að hitta okkar samninganefnd í kvöld,“ segir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, í samtali við mbl.is, en Samtök atvinnulífsins lögðu fram tilboð á fundi hjá ríkissáttasemjara í morgun til lausnar kjaradeilu samtakanna við VR, Eflingu, Verkalýðsfélag Akraness og Verkalýðsfélag Grindavíkur.

Verkalýðsfélögin ætla að greina SA frá afstöðu sinni til tilboðsins á fundi hjá ríkissáttasemjara á föstudaginn. Spurður almennt um ganginn í viðræðunum segir Ragnar að segja megi að línurnar séu að skýrast. Hins vegar sé ljóst, eins og legið hafi talsvert lengi fyrir, að aðkoma stjórnvalda þurfi að vera umtalsverð til að leysa deiluna.

„Það þarf að fara að nálgast einhverja niðurstöðu í þessum viðræðum, bæði hvað varðar SA og stjórnvöld. Hver sem hún síðan verður. Við erum alla vega komin með tilboð í hendurnar til þess að taka efnislega afstöðu til og við munum taka stöðuna með okkar samninganefnd í kvöld,“ segir Ragnar. Boltinn sé þannig í raun hjá stjórnvöldum.

Þar sé um að ræða kerfisbreytingar sem hafi mikil áhrif á félagsmenn verkalýðsfélaganna til lengri og skemmri tíma. Þar spili inn í húsnæðismálin, aðgerðir í verðtryggingar- og vaxtamálum, aðgerðir varðandi greiðslu hækkaðs iðgjalds inn á fasteignalán og til uppsöfnunar í útborgun til íbúðakaupa og skattkerfisbreytingar.

Þarf raunverulegan vilja stjóirnvalda

„Þetta er allt leysanlegt en það þarf raunverulegan vilja stjórnvalda og viðleitni til þess að koma að þessu vegna þess að það er svo mikið í húfi. Ekki bara fyrir okkar félagsmenn heldur líka fyrir stjórnvöld,“ segir Ragnar. Hinn valkosturinn sé ekki góður. Vísar hann til þess að samningar opinberra starfsmanna losni í lok mars og fram í júní.

„Þá verða stjórnvöld með allan vinnumarkaðinn í fanginu og verða með hann í fanginu út kjörtímabilið. Ég held að ríkisstjórninni hreinlega verði ekki mikið meira úr verki heldur en það ef hún tekur ekki stöðuna alvarlega og er tilbúin til þess að ná lengri samningi við vinnumarkaðinn, bæði hinn opinbera og almenna,“ segir hann enn fremur.

Þannig sé til gríðarlega mikils að vinna fyrir stjórnvöld og samfélagið að ná góðri lendingu við verkalýðshreyfinguna um þriggja ára samning. „Slíkur samningur yrði gríðarlega mikilvægur fyrir allt hagkerfið, fólkið og fyrirtækin. Við getum þá farið að gera einhver plön. Það er mikið undir, ábyrgð okkar er mikil og við gerum okkur grein fyrir því. Við erum búin að leggja mikið í sölurnar til þess að reyna ná lendingu. Það get ég fullyrt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert