Boða til mótmæla vegna komu Pompeo

Fulltrúar fimm ungliðahreyfinga afhentu fulltrúa utanríkisráðuneytisins áskorun í dag, þess …
Fulltrúar fimm ungliðahreyfinga afhentu fulltrúa utanríkisráðuneytisins áskorun í dag, þess efnis að íslensk stjórnvöld nýti fund með Pompeo til að fordæma mannréttindabrot gegn börnum á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó. Ljósmynd/Aðsend

Fimm ungliðahreyfingar stjórnmálaflokka hafa boðað til mótmæla á Austurvelli kl. 16 á morgun í tengslum við komu Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hingað til lands.

Ungliðahreyfingarnar afhentu í dag fulltrúa utanríkisráðuneytins áskorun, þar sem skorað er á íslensk stjórnvöld að nýta fundi með Pompeo til þess að þrýsta á hann um að beita sér fyrir því að „mannréttindabrot gegn börnum“ á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó verði stöðvuð.

„Nauðsyn­legt er að rík­is­stjórn Íslands for­dæmi aðgerðir banda­rískra stjórn­valda en sé ekki aðgerðarlaus áhorf­andi í slík­um al­var­leg­um brot­um,“ seg­ir í áskoruninni, sem Ung vinstri græn, Ung­ir jafnaðar­menn, Ung­ir Pírat­ar, ung­ir meðlim­ir Sósíaslista­flokks­ins og Upp­reisn, ungliðahreyf­ing Viðreisn­ar, skrifa undir.

Ungliðahreyfingarnar leggja áherslu á að mótmæli morgundagsins séu „ekki flokkstengd“ og að öllum sé velkomið að taka þátt. Fram kemur á Facebook-viðburði sem stofnaður hefur verið um mótmælin að staður og stund mótmælanna gæti breyst, en það fari eftir því hvar Pompeo muni funda með þeim Guðlaugi Þór Þórðarsyni utanríkisráðherra og Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra.

„Nú er tími til þess að sýna að Ísland ætli ekki að sitja þegjandi hjá á meðan brotið er gegn mannréttindum barna. Við hvetjum alla til að mæta og sýna fórnarlömbunum samstöðu,“ segir í fréttatilkynningu frá ungliðahreyfingunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert