Gögnin aðgengileg en samt ekki

Úrskurðarnefnd upplýsingamála segir verulega annmarka hafa verið á afgreiðslu fyrirspurnar …
Úrskurðarnefnd upplýsingamála segir verulega annmarka hafa verið á afgreiðslu fyrirspurnar blaðamanns er sneri að fundargerðum kjararáðs. ml.is/Þorkell

Fjármála- og efnahagsráðuneytinu hefur verið gert að taka til skoðunar á ný beiðni blaðamanns  er sneri að afhendingu fundargerða kjararáðs, en ákvörðun ráðuneytisins um að vísa beiðninni frá byggðist á því að ráðuneytið taldi sig ekki búa yfir umræddum gögnum þegar þau voru í vörslu þess, að því er segir í úrskurði úrskurðarnefndar upplýsingamála.

Úrskurðarnefnd upplýsingamála segir í úrskurði sínum ákvörðun ráðuneytisins um frávísun „vera haldna efnislegum annmörkum sem að mati nefndarinnar væru svo verulegir að ekki yrði hjá því komist að fella hana úr gildi.“

Gögnin ekki hjá ráðuneytinu

Blaðamaður fjölmiðils sem ekki er tilgreindur kærði 8. nóvember 2018 ákvörðun ráðuneytisins um að vísa frá beiðni hans þar sem óskað var eftir meðal annars fundargerðum kjararáðs frá ársbyrjun 2013 til þess dags sem það var lagt niður.

Ráðuneytið svaraði hins vegar á þá leið að umrædd gögn hafi ekki verið og væru ekki í vörslum þess, þar sem þau væru á ábyrgð Þjóðskjalasafns. Á þeim grundvelli taldi ráðuneytið einnig að ákvörðun þess um að vísa málinu frá hafi ekki verið kæranleg til úrskurðarnefndarinnar.

Engin vafi um hvar gögnin voru

Gögnin höfðu þó ekki verið afhent Þjóðskjalasafni, heldur var unnið að undirbúningi afhendingar þeirra.

„Þegar beiðni kæranda um aðgang að fundargerðum kjararáðs var sett fram, 9. október 2018, vann starfsmaður fjármála- og efnahagsráðuneytisins að frágangi skjalasafns ráðsins í húsnæði á forræði Stjórnarráðsins. Við þessar aðstæður telur úrskurðarnefnd um upplýsingamál engum vafa undirorpið að gögnin hafi verið í vörslum ráðuneytisins á þessum tímapunkti,“ segir í úrskurðinum.

Úrskurðarnefndin felldi úr gildi frávísun ráðuneytisins og því gert að taka beiðni umrædds blaðamanns til nýrrar efnislegrar meðferðar.

mbl.is/Ófeigur

Bentu á hvor annan

Nokkuð erfiðlega hefur verið fyrir fjölmiðla að nálgast umrædd gögn, en mbl.is sendi fjármálaráðuneytinu ósk um að fá afhent allar fundargerðir kjararáðs 10. júlí í fyrra. Var beiðnin áfarmsend Þjóðskjalasafni undir þeim formerkjum að gögnin væru ekki í umsjá ráðuneytisins.

Var sagt að fundargerðirnar væru í vörslu „starfsmanns [kjararáðs] sem sér um frágang gagnanna“ og að starfsmanninum væri ekki unnt að svara beiðnum af þessum toga þar sem „starfssvið hans takmarkast við að ganga frá gögnum ráðsins, þ.á m. að afhenda skjöl til Þjóðskjalasafns samkvæmt lagaskyldu.“

Þann 15. ágúst barst svar frá skjalaverði vegna fyrirspurnar mbl.is. Kom fram í svarinu að umrædd gögn væru ekki hjá skjalaverði og að engar viðræður væru hafnar milli Þjóðskjalasafns og ráðuneytisins um afhendingu fundargerðanna. Vísaði hann á ráðuneytið þar sem gögnin væru í vörslu þess.

Engar upplýsingar um síðustu ákvörðun

Fram kom í umfjöllun mbl.is í ágúst að síðasta verk kjararáðs var að úrskurða um launahækkanir 48 forstjóra ríkisstofnana. Voru þetta meðal annars uppsafnaðar beiðnir um endurmat launa allt frá árinu 2016.

Á vef kjararáðs var þá að finna alla úrskurði ráðsins frá 2006 og hefur fylgt hverri ákvörðun rökstuðningur þar sem fram koma breytingar á eðli starfs sem um ræðir, álagi og launaþróun sambærilegra starfa. Ekkert þessara upplýsinga er að finna í síðustu ákvörðun kjararáðs þar sem samþykkt var launabreyting 48 forstjóra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert