Reynslulausir ökumenn í verstu aðstæðum

Lögreglan á Suðurlandi á vettvangi útafaksturs á Selhrygg í nágrenni …
Lögreglan á Suðurlandi á vettvangi útafaksturs á Selhrygg í nágrenni Víkur í Mýrdal. Ljósmynd/Þorleifur Eggertsson

Meðal þeirra fjölmörgu sem aka um Suðurlandið í vetur eru ferðamenn sem koma frá löndum þar sem sjaldan eða aldrei snjóar. Þeir hafa því jafnvel ekki séð hálku fyrr og hvað þá ekið í henni. Ekki nóg með það heldur hafa þeir sumir hverjir sáralitla reynslu af akstri yfir höfuð. Af þessum hópi hefur lögreglan á Suðurlandi sérstakar áhyggjur sem og öllum þeim sem aka á of miklum hraða við aðstæður sem eru um það bil þær verstu sem geta skapast á Íslandi.

Við þessu þarf að bregðast að sögn Sveins Kristjáns Rúnarssonar, yfirlögregluþjóns á Suðurlandi, en í stað þess að sjá aukna ferðamennsku sem vandamál þarf að hans mati að rýna í tækifærin, byggja upp og bæta þjónustu sem og löggæslu. 

„Það hefur orðið stjarnfræðileg breyting á umferð um vegina á Suðurlandi,“ segir Sveinn Kristján. Hann hefur starfað hjá embættinu í fimmtán ár og segir breytinguna hraða síðustu árin samhliða aukinni ferðamennsku. Fyrir nokkrum árum gátu lögreglumennirnir nýtt vetrarmánuðina til verkefna sem ekki hafði verið hægt að sinna um sumarið. En nú er öldin önnur. „Það er nánast jafnmikil umferð allt árið um kring. Og oft er allt á hvolfi, mjög mikið að gera.“

Gríðarstórt svæði

Umdæmi lögreglunnar á Suðurlandi er víðfeðmt, það nær yfir um þriðjung landsins, allt frá Litlu kaffistofunni í vestri til Hvalnesskriða í austri. Að auki er hálendið upp af Suðurlandinu innan umdæmisins.

Sveinn segir alveg ljóst að uppbygging ferðaþjónustunnar og lögreglunnar hafi ekki haldist í hendur. Í raun sé allt kerfið nokkrum skrefum á eftir. Nokkur bót hefur þó orðið á og nú í ár fær lögreglan á Suðurlandi auknar fjárheimildir sem m.a. verða nýttar til að fjölga stöðugildum. Nú eru 54 lögreglumenn starfandi á Suðurlandi en Sveinn segir að enn þurfi að bæta við eigi vel að vera. „Sem dæmi þá erum við með fáa lögreglumenn á Vík og Kirkjubæjarklaustri en mörg  stór verkefni. Þar hafa til að mynda orðið nokkur alvarleg slys í umferðinni.“

Að sögn Sveins eru ökumennirnir á svæðinu jafn misjafnir og þeir eru margir en oft vanti verulega upp á þekkingu og reynslu margra ferðamanna. Sveinn tekur undir með starfsmönnum Vegagerðarinnar og leiðsögumönnum sem mbl.is ræddi við í síðustu viku og segir einna mesta hættu stafa af óvönum bílstjórum á bílaleigubílum. „Og við fáum þetta fólk á fullri ferð inn í umferðina.“

Sveinn Kristján Rúnarsson hefur starfað hjá lögreglunni á Suðurlandi í …
Sveinn Kristján Rúnarsson hefur starfað hjá lögreglunni á Suðurlandi í fimmtán ár. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Sem betur fer eru margar bílaleigur, m.a. þær stærstu, að leigja út vel búna bíla. En það dugar skammt þegar þekkingin er lítil. „Góður bíll á negldum dekkjum er ekki nóg þegar við stýrið situr maður sem hefur sjaldan eða aldrei keyrt í hálku og snjó.“

Ferðamenn frá löndum í Asíu séu til að mynda hlutfallslega margir á Íslandi yfir helstu vetrarmánuðina og reynslan sýni að þeir hafi sumir hverjir takmarkaða reynslu af akstri í vetrarfærð.

Sveinn segir að af þessu hafi lögreglan töluverðar áhyggjur.

Útköll vegna óhappa daglegt brauð

En hvað skal þá gera, þarf að setja einhverjar bremsur á það hverjir fá að keyra um íslenska vegakerfið að vetri?

„Tja, þá vaknar spurningin um frelsi til athafna,“ svarar Sveinn og bendir á að varla sé hægt að banna ákveðnum hópum að keyra, málið sé flóknara í framkvæmd en svo.

Það fyrsta sem þurfi að gera sé að „girða sig í brók“ og takast á við vandamálið með leiðum sem séu raunhæfar og færar. „Við ættum að líta á aukna ferðamennsku sem tækifæri til uppbyggingar og vanda okkur við það verkefni. Fara í gegnum okkar kerfi og bæta þau.“

Síðustu daga janúar og nú í byrjun febrúar hefur færðin á Suðurlandi sem og víðar á landinu verið erfið. Það hefur snjóað og mikil hálka myndast á mörgum fjölförnum leiðum. „Þá daga er það daglegt brauð að við séum kallaðir á vettvang slysa og óhappa,“ segir Sveinn. Nefnir hann sem dæmi að frá áramótum og til og með síðasta mánudegi hafi 106 óhöpp verið tilkynnt, þar af 21 fyrstu ellefu daga febrúarmánaðar. Óhöppin eru af ýmsum toga; menn aka út af, velta bílum eða lenda í árekstrum.

Margir aka allt of hratt

Fyrir utan þennan fjölda hafna margir utan vegar eða lenda í smáóhöppum án þess að kalla til lögreglu. Það sé því ekki ofsögum sagt að sjá megi bíla utan vegar á hverjum degi á þjóðveginum milli Reykjavíkur og Hafnar og stundum marga á dag. „Þetta er auðvitað ekki ásættanlegt,“ segir Sveinn. „Við viljum ekki eitt einasta óhapp eða slys, það á alltaf að vera markmiðið.“

Rúta út af veginum á þjóðvegi 1 norðan Reynisfjalls, skammt …
Rúta út af veginum á þjóðvegi 1 norðan Reynisfjalls, skammt frá Vík í Mýrdal. mbl.is/Jónas Erlendsson

Sveinn segir hluta vandans felast í því að fólk aki allt of hratt miðað við aðstæður og oft miklu hraðar en hámarkshraði leyfi. Á köflum séu langir beinir kaflar á þjóðveginum þar sem margir freistist til að stíga fastar á bensíngjöfina. Á það bæði við Íslendinga og ferðamenn. Fyrstu ellefu daga febrúarmánaðar höfðu 56 ökumenn verið kærðir fyrir of hraðan akstur í umdæmi lögreglunnar á Suðurlandi og 218 ökumenn kærðir frá áramótum. Oft er hraðinn mjög mikill, jafnvel yfir 130 kílómetrar á klukkustund. „Þarna erum við að tala um daga þar sem færðin hefur verið erfið, við ein verstu skilyrði sem hugsast getur. En samt er ekið á þessum hraða.“

Óttast stöðugt alvarleg slys

Lögreglumenn á Suðurlandi eru við störf úti á vegunum alla daga, m.a. við hraðamælingar. Viðbótarfjármagn þetta árið er nýtt til að efla þetta eftirlit enn frekar. „Að sjá lögreglubíla úti á vegunum er að okkar mati ein öflugasta forvörnin og sú ódýrasta þegar allt er tekið saman.“

Mörg alvarleg slys hafa orðið í umdæmi Sveins síðustu misseri. Hann segist vissulega óttast það á hverjum degi að fleiri slík slys eigi sér stað, „því miður“.

Hann segir viðbragðsaðila hittast reglulega á fundum þar sem rædd séu viðbrögð við alvarlegum slysum. „Við erum orðin eins og smurð vél, sem er auðvitað gott, en á sama tíma er vont að ástæðan fyrir því séu þessi stóru slys sem við erum að fá.“

Auka þarf fræðslu

Sveinn tekur undir með Einari Pálssyni, forstöðumanni þjónustudeildar Vegagerðarinnar, sem sagði í viðtali við mbl.is um helgina að gríðarlegar þjóðfélagsbreytingar hafi átt sér stað á stuttum tíma samhliða aukinni ferðamennsku og taka þurfi þær með í reikninginn. Bregðast þurfi við því að um vegina aki aukinn fjöldi óvanra ökumanna. Ekki sé fært að hvetja ferðamenn til að fara um landið og vona svo bara það besta. Þarna komi m.a. fræðsla til skjalanna, mun betur má gera í þeim efnum að sögn Sveins, þó að ýmsir hafi tekið betur við sér en aðrir að því leyti. „Stærstu bílaleigurnar hafa lagt metnað í þessa fræðslu en maður hefur áhyggjur af sumum þeirra minni. Þar sjáum við að víða er enn pottur brotinn, bæði hvað varðar ástand ökutækja og fræðslu til kúnna.“

Mjög alvarleg slys hafa orðið að vetri í umferðinni í …
Mjög alvarleg slys hafa orðið að vetri í umferðinni í umdæmi lögreglunnar á Suðurlandi síðustu misseri. Ljósmynd/Landsbjörg

Hann segir lögreglumenn reglulega stöðva för illa útbúinna bílaleigubíla. Sjálfir hafi ferðamennirnir margir hverjir enga þekkingu á því hvernig bílar þurfi að vera útbúnir í íslenskri vetrarfærð. „Þeir eru að koma frá heitum löndum og hafa varla séð snjó.“

Eru ferðamenn frá þessum löndum að keyra vegina á Suðurlandi í vetur, þegar allra veðra er von, sem hafa aldrei áður keyrt í hálku?

„Já, klárlega. Alveg fullt af þeim,“ svarar Sveinn að bragði. „Ekki aðeins hafa þeir aldrei hálku séð heldur eru þeir reynslulitlir bílstjórar yfir höfuð.“

Þarf að endurskoða þjónustustigið

Leiðsögumenn sem mbl.is ræddi við í síðustu viku eru á því að betur mætti sinna vetrarþjónustu á Suðurlandi. Frá Reykjavík og til Selfoss er hún á þjónustustigi 1 sem þýðir að hálka er ekki ásættanlegt ástand og við henni brugðist. Austan Selfoss tekur við þjónustustig 2 sem þýðir að varhugaverðir staðir eru hálkuvarðir og brugðist við flughálku þegar hún myndast. Í þessari flokkun er m.a. stuðst við umferðarþunga.

„Að mínu mati þyrfti að endurskoða það þjónustustig sem Vegagerðin miðar við á þessu svæði,“ segir Sveinn. „Ég myndi vilja sjá sama þjónustustig austur að Jökulsárlóni og er frá Reykjavík og til Selfoss. Ég veit svo sannarlega að starfsmenn þeirrar stofnunar eru allir af vilja gerðir til að gera sitt besta miðað við aðstæður. En þetta er gríðarlega dýr þjónusta og allt snýst þetta um fjármagn.“

Á hverjum degi, stundum nokkrum sinnum á dag, er lögreglan …
Á hverjum degi, stundum nokkrum sinnum á dag, er lögreglan á Suðurlandi kölluð til vegna umferðarslysa og óhappa á vegum í umdæminu. Oft hafa þá bílar farið útaf veginum. Mbl.is/Jónas Erlendsson

Yrði hálkuvarið af meiri krafti lengra austur yrði það vissulega til bóta. „Við sjáum það hjá okkur að hraðinn á umferðinni eykst eftir því sem austar dregur, á löngu, beinu köflunum, þegar lengra er á milli þéttbýliskjarna. Og einmitt á þessum stöðum er minna hálkuvarið og stundum ekkert.“

Leggur róttæka hugmynd á borðið

Sveinn er svo með aðra hugmynd til úrbóta. Hún kann að þykja róttæk í hugum Íslendinga en er það ekki að hans sögn: Að láta hámarkshraða fylgja aðstæðum hverju sinni.

Að þessu leyti mætti horfa til meginlands Evrópu. „Ég er nýkominn frá Austurríki og um leið og færð breytist þar, það myndast hálka og erfitt reynist að hálkuverja eða moka, þá lækka menn hámarkshraðann tímabundið. Við eigum að vera ófeimin við að gera þetta, alveg hiklaust. Þetta væri einfaldlega liður í auknu umferðaröryggi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert