„Boltinn er bara alls staðar“

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir boltann í kjaraviðræðum í raun vera …
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir boltann í kjaraviðræðum í raun vera alls staðar. Haraldur Jónasson/Hari

„Við höfum verið í óformlegum samtölum bæði við atvinnurekendur og verkalýðshreyfinguna undanfarnar vikur,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í samtali við mbl.is vegna gagntilboðs Eflingar til Samtaka atvinnulífsins sem sett var fram í dag þar sem komið var til móts við kröfur samtakanna með því skilyrði að stjórnvöld settu fram og stæðu við skattkerfisbreytingar. Efling segir fyrir vikið beðið eftir útspili stjórnvalda.

„Við höfum auðvitað eins og öllum er kunnugt verið að undirbúa ýmsar tillögur sem við teljum að geti orðið til þess að greiða fyrir kjarasamningum. Bæði í húsnæðismálum, hvað varðar félagsleg undirboð, og í skattamálum þar sem við gáfum út yfirlýsingu í vor um að þær skattbreytingar sem við myndum leggja til yrði útfærðar þannig að þær kæmu sér best fyrir lágtekjuhópa og lægri millitekjuhópa en við höfum líka sagt að aðkoma stjórnvalda hangir auðvitað á því að það sjái til lands í kjaraviðræðum,“ segir Katrín ennfremur.

„Þannig að þetta er auðvitað flókin staða, þessar kjaraviðræður, og þess vegna höfum við átt þessar óformlegu samtöl í töluverðan tíma,“ segir Katrín. Spurð hvort boltinn sé að hennar mati hjá aðilum vinnumarkaðarins segir Katrín: „Boltinn er bara alls staðar. Það er bara þannig sem staðan er. Þessir aðilar sitja auðvitað við samningaborðið og eru að vinna í því að ná saman. En um leið liggur fyrir að við höfum verið að undirbúa okkar tillögur til þess að geta greitt fyrir því að farsæl lausn náist.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert