Búið að opna fyrir umferð um Hellisheiði

Búið er að opna fyrir umferð um Hellisheiði.
Búið er að opna fyrir umferð um Hellisheiði. mbl.is/Sigurður Bogi

Búið er að opna fyrir umferð um Hellisheiði, en veginum var lokað í nótt vegna ófærðar. Fyrr í morgun var opnað fyrir umferð um Þrengslin, en þar hafði einnig verið lokað fyrir umferð í nótt.

Enn er þungfært og vegir lokaðir víða um land vegna ófærðar og veðurs. Þannig eru Hálfdán og Klettsháls lokaðir og beðið er með mokstur meðan veðrið gengur niður. Möðrudalsöræfi eru einnig lokuð, en aðstæður verða skoðaðar aftur um hádegi.

Ófært er í Kjósaskarði og á Krýsuvíkurvegi og snjóþekja er á Grindavíkurvegi. Hálka, hálkublettir eða snjóþekja á flestum öðrum leiðum á Suðvesturlandi.

Búið er að opna Vatnaleið á Snæfellsnesi, en þar er snjóþekja á veginum. Fróðárheiði er enn lokuð. Ófært er við Hafursfell. Þungfært er á Bröttubrekku og Svínadal en þæfingsfærð í Borgarfirði. Þæfingsfærð, hálka eða snjóþekja á flestum öðrum leiðum.

Varað er við snjóflóðahættu á Flateyrarvegi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert