Ók á brott eftir að hafa skemmt fjölda bíla

Yfir 80 mál komu upp hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu frá því klukkan sjö í gærkvöldi fram á morgun og voru níu vistaðir í fangageymslu í nótt. Tveir menn voru meðal annars handteknir í Reykjavík seint í gærkvöldi grunaðir um sölu og dreifingu fíkniefna. Voru þeir vistaðir í fangageymslu.

Þá komu upp átta mál þar sem lögreglan hafði afskipti af ökumönnum sem grunaðir eru um akstur undir áhrifum áfengis og/eða fíkniefna. Í eitt skiptið var um að ræða ökumann sem hafði ekið á brott eftir árekstur við kyrrstæðar bifreiðar og voru skemmdir á þeim bifreiðum töluverðar að því er fram kemur í dagbók lögreglu.

Þá hafði lögreglan afskipti af karlmanni eftir miðnætti á skyndibitastað í miðbænum. Var tilkynnt um að hann hefði skemmt skilti og síðan hlaupið á brott. Lögreglan fann manninn skömmu síðar og handtók, en vegna ástands og dólgsláta var hann vistaður í fangageymslu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert