Leysigeisla beint að flugvél

Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu barst tilkynning frá flugturninum í Reykjavik upp úr klukkan 21 í gærkvöldi um að grænum leysigeisla hefði verið beint að flugvél sem var að lenda á Reykjavíkurflugvelli. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu hefur gerandinn ekki fundist.

Á vef Samgöngustofu er fjallað um hættuna sem fylgir því ef leysigeisla er beint að loftförum. Þetta hefur valdið alvarlegum flugatvikum og jafnvel flugslysum. 

Leysigeisli sem fellur skyndilega á augu getur valdið blossablindu með eftiráhrifum sem standa yfir í nokkurn tíma og trufla eða koma í veg fyrir að stjórnandi loftfars geti lesið af mælitækjum og greint hluti í umhverfinu. 
Sá sem beinir leysigeisla að loftfari stefnir því í bráða hættu auk þess sem slíkt athæfi varðar við 168. gr. almennra hegningarlaga. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert