Ríkið leitar hugmynda um framtíðina

Stjórnarráðið.
Stjórnarráðið. mbl.is/Ófeigur

Framtíðarnefnd forsætisráðherra leitar nú að rökstuddum hugmyndum að sviðsmyndum í framtíðinni frá bæði almenningi og hagsmunaaðilum, en markmið nefndarinnar er að skapa grundvöll fyrir umræðu um þróun mikilvægra samfélagsmála til lengri tíma.

Fram til 10. mars gefst fólki kostur á að senda inn umsagnir, en þar eru birtar spurningar sem nefndin hefur sett fram varðandi viðfangsefnið. Er þar meðal annars reynt að draga fram ólíkar hugmyndir um þróun samfélagsþátta og hvernig þeir kunna að hafa áhrif á fjárhagsstöðu ríkisins í framtíðinni. Spurningarnar eru:

1) Hvaða þróun er að eiga sér stað í samfélaginu og hver verða áhrif þess á fjárhagsstöðu ríkisins árið 2035-2040 ?

2) Hvaða annars konar sviðsmyndir eru líklegar árið 2035-2040?

  • Annars konar framtíðir geta byggst á því að kanna mögulegar öfgar ýmissa óvissuþátta (s.s. ágreining um hvert eigi að stefna eða áhrif framtíðarbreytinga).
  • Að kanna hugsanlegar truflanir sem gætu grafið undan núverandi forsendum og dregið verulega úr sameiginlegum væntingum um framtíðina.
  • Greina hugsanlegar breytingar sem ekki eru enn á sjóndeildarhring viðkomandi aðila.
  • Skoða breytingar sem eru að gerast utan tiltekins viðfangsefnis eða málaflokks, þar sem þær geta verið uppspretta mestu röskunarinnar.
  • Mikilvægt er að annars konar framtíðir líti til langtímabreytinga sem kunna að verða á umgengni við náttúruna, lýðfræðilegum breytingum og þeim umskiptum sem eru í vændum með síaukinni sjálfvirkni.

3) Hvaða nýju áskorunum eða tækifærum stendur Ísland frammi fyrir út frá mismunandi sviðsmyndum?

4) Hvaða nýju stefnur og áætlanir þarf að setja svo að stuðla megi að framþróun Íslands og velmegun út frá mismunandi sviðsmyndum?

Nánar má lesa um málið á samráðsgátt stjórnvalda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert