Þjófar og fíkniefnasalar í haldi

mbl.is/Eggert

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu segir að nóttin hafi verið róleg í umdæminu en sex gista fangageymslur eftir nóttina.

Klukkan 22 voru tveir karlmenn á þrítugsaldri handteknir í hverfi 104 grunaðir um sölu og dreifingu fíkniefna. Þeir eru báðir vistaðir í fangageymslu.

Skömmu síðar stöðvaði lögreglan ökumann í hverfi 110 sem var grunaður um að aka undir áhrifum fíkniefna. Á lögreglustöð sýndi fíkniefnapróf jákvæða svörun við þremur tegundum fíkniefna. Ökumaðurinn var látinn laus að lokinni sýnatöku.

Á þriðja tímanum í nótt var tilkynnt um umferðaróhapp í hverfi 104. Bifreið hafði verið ekið upp á umferðareyju og á umferðarskilti. Bifreiðin var nokkuð skemmd eftir áreksturinn.

Samkvæmt dagbók lögreglu sáust tveir menn koma sér í burtu af vettvangi en lögregla fann þá skömmu síðar og handtók. Báðir voru þeir undir áhrifum fíkniefna. Kom í ljós að bifreiðin var stolin og í henni fannst þýfi úr öðrum málum. Tvímenningarnir eru vistaðir í fangageymslu.

Lögreglan stöðvaði síðan ökumann á tíunda tímanum í gærkvöldi í hverfi 109 grunaðan um akstur undir áhrifum fíkniefna. Einnig fannst á honum neysluskammtur af fíkniefnum. Látinn laus að lokinni skýrslu- og sýnatöku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert