Öflugri blóðskimun nauðsynleg

Talið er hæfilegt fyrsta skref í að hverfa frá banni …
Talið er hæfilegt fyrsta skref í að hverfa frá banni við blóðgjöfum samkynhneigðra karla að heimila slíka löggjöf í þeim tilfellum sem gjafi hefur ekki stundað kynmök í eitt ár. Ljósmynd/ Guðmundur Rúnar Guðmundsson

Reynslan af því að hverfa frá algjöru banni við blóðgjöfum karla, sem stunda kynlíf með öðrum körlum, og heimila þær af því gefnu að gjafi hafi ekki stundað kynmök í sex til 12 mánuði hefur ekki gefið tilefni til þess að efast um öryggi blóðgjafarinnar.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í áliti ráðgjafanefndar um fagleg málefni blóðbankaþjónustu.

Telur nefndin hæfilegt fyrsta skref í að hverfa frá banni við blóðgjöfum samkynhneigðra karla að heimila slíka löggjöf í þeim tilfellum sem gjafi hefur ekki stundað kynmök í eitt ár.

Þá segir nefndin nauðsynlegt að grípa til fleiri aðgerða samhliða því að banninu sé aflétt.

Meðal aðgerða er að yfirfara og meta takmarkanir á blóðgjöf í sambandi við einstaklinga sem hafa „húðmyndskreytingar (tattoo), íhluti í húð og slímhúðir, maga- og ristilspeglun, kynmök við fólk í sérstakri áhættu, ferðalög á malaríusvæði og fleiri þætti.“

Nauðsynlegt er að bæta öryggi blóðgjafar með öflugri skimun en nú er gert. Sérstaklega er um að ræða kjarnsýruprófun sem til þess er fallið að greina sýkingarvalda sem getur stafað hætta af.

Einnig er talið mikilvægt að fari fram kynning og umræða um fyrirhugaðar breytingar, að mati nefndarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert