Skírlífi í ár „alla vega hænuskref“

Unnsteinn Jóhannsson, varaformaður Samtakanna ´78.
Unnsteinn Jóhannsson, varaformaður Samtakanna ´78. Ljósmynd/Samtökin ´78

Við skiljum sjónarmið þess að það þurfi að gæta varkárni en að sama skapi þá hefðum við viljað ganga lengra,“ segir Unnsteinn Jóhannsson, varaformaður Samtakanna ´78, við mbl.is. Ráðgjafanefnd um fagleg málefni blóðbankaþjónustu leggur til að samkynhneigðum mönnum verði leyft að gefa blóð tólf mánuðum eftir samræði við annan mann.

Greint var frá áliti ráðgjafanefndarinnar á vef RÚV.

Hér á landi hafa hommar ekki mátt gefa blóð. Samkvæmt reglum sem tóku gildi í Danmörku um áramótin mega hommar gefa blóð ef þeir hafa ekki stundað kynlíf með öðrum körlum í fjóra mánuði.

Unnsteinn segir að undanfarið hafi Samtökin fundað með landlækni og formanni ráðgjafanefndarinnar. Hann segir að félagsfólk í Samtökunum hefði viljað ganga lengra en ráðgjafanefndin leggur til.

Helst myndum við vilja lög þar sem er ekki nein svona takmörkun, eða kynlífsbindindi. Við gerðum okkur vonir um álit sem yrði í áttina að danska fyrirkomulaginu,“ segir Unnsteinn og bætir við að hann skilji það sjónarmið að varkárni verði að vera til staðar. 

„Þetta er alla vega hænuskref,“ segir Unnsteinn en í áliti nefndar kemur fram að fara eigi varlega í sakirnar vegna þess að rétturinn til að fá öruggt blóð sé ríkari en rétturinn til að mega gefa blóð.

Erfitt að sýna fram á skírlífið

Unnsteinn segir að honum virðist sem hugmyndin hugnist ekki félagsfólki. Þrátt fyrir það séu Samtökin tilbúin að vinna áfram með ráðgjafanefndinni og landlækni, þar sem þau hafi fundið fyrir miklum skilningi og mætt góðu viðhorfi.

Eins og fram hefur komið er skírlífi í eitt ár skilyrði fyrir blóðgjöf homma, samkvæmt ráðgjafanefndinni. Spurður segir Unnsteinn að erfitt sé að sýna fram á skírlífið. 

„Það er einmitt akkúrat það sem við bentum á í samtölum okkar við þessa aðila. Það er erfitt að sýna fram á að þú hafir ekki stundað kynlíf í tólf mánuði. Þetta snýst allt um traust en það er erfitt að sýna fram á þetta og við reyndum að benda á það.

Unnsteinn hefði frekar viljað fara aðrar leiðir og bendir á Portúgal og Ítalíu í því samhengi. Þar er fólk flokkað í tvo eða þrjá flokka eftir því hversu mikil áhætta sé á því að það sé með smitað blóð en ekki er spurt hversu langur tími er liðinn frá því það stundaði síðast kynlíf.

„Þetta er alla vega viðleitni og það er verið að fikra sig áfram. Helst hefðum við viljað sjá að það væru engin kynlífsbindindi í gangi, enda erfitt að sanna þau.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert