Hagstofan spáir 1,7% hagvexti í ár

Hagstofa Íslands spáir því að hagvöxtur ársins verði 1,7%.
Hagstofa Íslands spáir því að hagvöxtur ársins verði 1,7%. mbl.is/Eggert

Hagstofa Íslands reiknar með því að hagvöxtur í ár verði 1,7% í endurskoðaðri þjóðhagsspá að vetri, sem birtist í Hagtíðindum í dag. Spáin tekur til áranna 2018-2024 og er gert ráð fyrir því að hagvöxtur næstu ára verði á bilinu 2,5-2,8%.

„Útlit er fyrir að verg landsframleiðsla aukist um 1,7% í ár. Það er nokkuð minni aukning miðað við meðalvöxt síðustu fimm ára sem er um 4,4%,“ segir í fréttatilkynningu á vef Hagstofunnar, en þar segir einnig að verri horfur í ár megi meðal annars rekja til minni útflutnings.

Spá Hagstofunnar er í takt við spá Seðlabanka Íslands, sem spáði því fyrr í þessum mánuði að hagvöxturinn á árinu yrði 1,8%.

Hagstofan gerir ráð fyrir því að hægja muni á vexti einkaneyslu í ár og að sá vöxtur verði 3,6%. Uppfærðar fjárhagsáætlanir sveitarfélaga, ásamt fjárlögum 2019 sem afgreidd voru í desember síðastliðnum, gera það að verkum að endurskoðuð spá fyrir vöxt samneyslu í ár er 2,7%.

„Hægt hefur á fjárfestingu að undanförnu og er áætlað að hún aukist um rúmlega 1% í ár en vaxi hraðar eftir það. Gert er ráð fyrir að fjárfestingarstig verði lítillega yfir meðaltali síðustu 20 ára sem er í kringum 22% af landsframleiðslu. Útflutningshorfur hafa versnað frá fyrri spá vegna aukinnar óvissu í ferðaþjónustu og líkum á minna framboði flugs til landsins á árinu. Reiknað er með 1,6% vexti útflutnings á árinu,“ segir á vef Hagstofunnar.

Þjóðhagsspá að vetri – endurskoðun

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert