Verkföll gætu bitnað mest á landsbyggðinni

Söluaðilar á Mið-Evrópumarkaði hafa áhyggjur af verkföllum. Aðgerðirnar komi á …
Söluaðilar á Mið-Evrópumarkaði hafa áhyggjur af verkföllum. Aðgerðirnar komi á versta tíma fyrir sumarið. mbl.is/​Hari

Fyrirhugaðar verkfallsaðgerðir gegn ferðaþjónustunni gætu bitnað einna mest á landsbyggðinni. Þetta segir Pétur Óskarsson, framkvæmdastjóri ferðaþjónustufyrirtækisins Katla DMI. Fyrirtækið áætlar að taka á móti 10 þúsund gestum frá Þýskalandi, Austurríki og Sviss á þessu ári.

Að sögn Péturs hefur íslensk ferðaþjónusta átt undir högg að sækja á meginlandi Evrópu síðan 2016 þegar krónan styrktist um 18 prósent á tólf mánaða tímabili. „Það eru margir sem eru að selja Ísland á þessu svæði mjög áhyggjufullir vegna verkfallanna,“ segir Pétur og bætir við að bókanir komi í tveimur bylgjum, annars vegar tímabilið nóvember til janúar og síðan aftur með vorinu, fyrir páska.

Pétur Óskarsson.
Pétur Óskarsson. Ljósmynd/Aðsend

„Það kvíða því allir að þetta fari í almenna pressu að verkföll séu á Íslandi,“ segir Pétur og bætir við að sannarlega eigi fréttirnar eftir að kvisast út ef af verkföllum verður 8. mars. Líkt og kom fram á mbl.is fyrr í dag getur farið svo að þúsund félagsmenn Eflingar leggi niður störf í verkfallsaðgerðum gegn ferðaþjónustu þann 8. mars.

„Okkar samstarfsaðilar í Þýskalandi eru mjög áhyggjufullir. Þjóðverjarnir eru viðkvæmir fyrir þessu,“ segir Pétur. Hann segir Þjóðverja vana festu heima fyrir þótt þeir þekki verkföll hjá nágrannaríkjum eins og Ítalíu og Frakklandi. „Það hlýst af þessu tjón, það nennir enginn að skipuleggja sumarfríið inn í óvissu,“ segir Pétur, áfangastaðirnir séu margir og alveg ljóst sé að margir ferðamenn finni sér annan áfangastað en Ísland logi hér á landi allt í átökum á vinnumarkaði.

Pétur segir samdráttinn á Mið-Evrópumarkaði á síðasta ári hafa verið um 20 prósent og áætlanir hafi gert ráð fyrir 10 prósenta samdrætti til viðbótar á þessu ári. „En við náum ekki að verjast í tíu prósentum ef fréttir af verkföllum fara í loftið. Ég tala nú ekki um ef það verða meiri aðgerðir,“ segir hann.

„Núna er aðal bókunartíminn og þetta eru landsbyggðarferðamennirnir okkar, þ.e. þeir fara fyrst og fremst út á land. Þess vegna mun samdráttur á þessum markaði bitna meira á landsbyggðinni en samdráttur í Bretlandi eða Bandaríkjunum,“ segir Pétur. „Þetta er ofboðslega vondur tími fyrir okkur upp á sumarið að gera,“ bætir hann við um fyrirhugaðar verkfallsaðgerðir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert