Undarleg ummæli fjármálaráðherra

Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness.
Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness. mbl.is/Hari

„Þetta voru mjög undarleg ummæli svo ekki sé fastar að orði kveðið,“ segir Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, um ummæli Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra. 

Bjarni sagði í Sprengisandi í gær að hann hefði „þá óþægi­legu til­finn­ingu“ að það sé sjálf­stætt mark­mið verka­lýðsfor­yst­unn­ar að fara í átök.

Vilhjálmur segir það alveg ljóst að markmið verkalýðshreyfingarinnar sé fyrst og fremst að ná fram kjarasamningi sem byggi á því að hægt sé að auka ráðstöfunartekjur félagsfólks. „Sérstaklega þeirra sem lægstir eru í tekjustiganum og lægri millitekjuhópa,“ segir Vilhjálmur.

Hægt að auka ráðstöfunartekjur þeirra tekjulægstu

Hann segir verkalýðshreyfinguna ítrekað hafa bent á að hægt sé að auka ráðstöfunartekjur þeirra tekjulægstu með þríliða samkomulagi sem lúti að því að stjórnvöld, atvinnurekendur og verkalýðshreyfingin taki höndum saman og finni leiðir til að gera landið ódýrara en það er í dag. „Við viljum líka létta skattbyrði á þeim sem höllustum fæti standa.“

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. mbl.is/​Hari

Fjármálaráðherra sagði enn fremur að honum þætti það ekki markviss vinna þegar menn töluðu út og suður um það sem gerst hefði við samningaborðið. Vilhjálmur sagðist ekki muna til þess að fjármálaráðherra hafi setið við samningaborðið á fundum verkalýðsfélaganna og SA hjá ríkissáttasemjara.

Fabúlerar um hluti sem hann veit ekkert um

„Mér finnst hann vera að fabúlera um einhverja hluti sem hann veit ekkert um. Við höfum átt ellefu fundi undir stjórn ríkissáttasemjara, þar á undan vorum við búin að halda svona 14 fundi fyrir utan tugi símtala og óformlegra samskipta við SA,“ segir Vilhjálmur og bætir við að honum virðist sem eitthvert vantraust sé hjá fjármálaráðuneytinu í garð ríkissáttasemjara.

Ríkissáttasemjari vísaði í morgun gagnrýni Bjarna um hlutverk sitt á bug og sagði að það væri ekkert nýtt að aðilar deili um kostnaðaráhrif af kjarasamningum. Vilhjálmur segist hafa staðið að gerð kjarasamninga í 14 ár og að vinnubrögðin væru ekki önnur nú en áður. 

„Hún hefur haldið utan um þetta eins og alltaf hefur verið gert. Þetta eru fabúleringar sem standast ekki eina einustu skoðun.“

Bryndís Hlöðversdóttir ríkissáttasemjari.
Bryndís Hlöðversdóttir ríkissáttasemjari. mbl.is/​Hari

Finnst deilan harðna dag frá degi

Allt stefnir í verkföll í næsta mánuði en ríkissáttasemjari hefur þá skyldu að boða aðila til fundar að minnsta kosti á hálfs mánaðar fresti. Ekki hefur verið boðað til næsta fundar en síðasti var haldinn á fimmtudag í síðustu viku. 

„Mér sýnist deilan bara harðna dag frá degi,“ segir Vilhjálmur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert