Ekki rétt að hér sé ekki ferðamálastefna

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferðamála.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferðamála. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ferðaþjónustan er sveiflukennd atvinnugrein í eðli sínu og þróun hennar ræðst af mörgum utanaðkomandi þáttum sem stjórnvöld geta ekki alltaf haft áhrif á, til að mynda stjórnmála- og efnahagsástandi í öðrum löndum, heimsmarkaðsverði á olíu og slíkum þáttum. Þrátt fyrir að blikur séu á lofti um þessar mundir eru langtímahorfur í greininni góðar.“

Þetta sagði Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, meðal annars í sérstakri umræðu um stöðu ferðaþjónustunnar á Alþingi í dag. Enn fremur væri ímynd Íslands sterk og alþjóðlegir straumar og stefnur styddu við áframhaldandi vinsældir landsins. Fólk sækti í auknum mæli í náttúruupplifanir á norðurslóðum, ævintýralegar upplifanir og örugga áfangastaði auk upplifana tengdum heilsu og vellíðan.

Ráðherrann sagði að það væri ekki rétt sem stundum væri sagt að Ísland hefði enga stefnu í ferðamálum. „Í gildi er þingsályktun um ferðamálaáætlun til 2020 og Vegvísir gildir sömuleiðis til 2020. Við höfum nú hafið endurskoðun á langtímastefnunni á vettvangi Stjórnstöðvar ferðamála. Fyrstu skrefin eru að móta framtíðarsýn og leiðarljós og samhliða því að framkvæma ítarlegt álagsmat á innviði sem er vel á veg komið.“

Minnti Þórdís á að um grundvallaratvinnugrein Íslands væri að ræða sem standa yrði vörð um og styrkja og efla. Hins vegar yrði að gæta þess að gera það á forsendum sjálfbærni. „Og af því að hér var líka nefnd markaðssetning finnst mér skipta máli að við horfum til þess að hin opinbera markaðssetning vegur alltaf minna og minna í stóra samhenginu. Það eru 2,2 milljónir ferðamanna eða hvað þær eru og verða sem sjá alltaf meira og meira um markaðssetningu á Íslandi.“

Fréttin hefur verið uppfærð. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert