Meirihluti andvígur veggjöldum

Rúmur helmingur landsmanna er andvígur innheimtu veggjalda til að standa …
Rúmur helmingur landsmanna er andvígur innheimtu veggjalda til að standa straum af rekstri þjóðvega á Íslandi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Rúmur helmingur Íslendinga er andvígur innheimtu veggjalda til að standa straum af rekstri þjóðvega á Íslandi, en um þriðjungur er því hlynntur. Þetta er niðurstaða nýrrar könnunar MMR sem framkvæmd var dagana 18.-28. janúar 2019.

Í könnuninni sögðust 34% svarenda mjög andvíg slíkum veggjöldum, 18% voru þeim frekar andvíg, 21% sögðust vera frekar fylgjandi og 11% voru mjög fylgjandi. Þá kváðust 17% hvorki vera fylgjandi né andvíg innheimtu veggjalda.

Litlar breytingar voru á afstöðu landsmanna frá könnun sem MMR framkvæmd í maí í fyrra.

Nokkur munur var þó á kynjum og aldurshópum varðandi afstöðu til veggjalda. Þannig reyndust konur jákvæðari en karlar og sögðust 33% kvenna vera fylgjandi innheimtu veggjalda til að standa straum af rekstri þjóðvega á Íslandi, samanborið við 29% karla. Karlar voru hins vegar líklegri til að segjast vera andvígir innheimtu slíkra gjalda, eða 54% á móti 49% kvenna.

Graf/MMR

Jákvæðni gagnvart veggjöldum jókst líka með hækkandi aldri. Sögðust 42% svarenda í elsta aldurshópnum, 68 ára og eldri, vera fylgjandi innheimtu veggjalda, samanborið við 36% svarenda á aldrinum 50-67 ára og 27% svarenda undir fimmtugu.

Lítill munur var hins vegar á afstöðu svarenda eftir búsetu.

Stuðningur við veggjöld var líka mismunandi eftir stjórnmálaflokkum og var stuðningsfólk Sjálfstæðisflokksins (49%), Vinstri-grænna (44%) og Viðreisnar (44%) líklegast til að segjast fylgjandi veggjöldum, en stuðningsfólk Miðflokksins ólíklegast (14%). Þá var stuðningsfólk Miðflokksins (73%), Flokks fólksins (61%) og Pírata (59%) líklegast til að segjast andvígt innheimtu veggjalda, en 65% stuðningsfólks Miðflokks og 61% stuðningsfólks Flokks fólksins kváðust vera þeim mjög andvíg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert