Urðu Hrekkjusvínin gosinu að bráð?

Hrekkjusvínin sjást hér standa á Skólavörðuholtinu árið 1972. Verkið var …
Hrekkjusvínin sjást hér standa á Skólavörðuholtinu árið 1972. Verkið var í Vestmannaeyjum um haustið þetta sama ár og varð mögulega gosinu að bráð í janúar 1973. Ljósmynd/ Bókin Útisýningarnar á Skólavörðuholti 1968-1972.

Engar ábendingar hafa borist um hvar Hrekkjusvínin, eitt af verkum Þor­bjarg­ar Páls­dótt­ur mynd­höggv­ara, eru niðurkomin í dag. Þetta segir Stefán Andrésson, sonur Þorbjargar, sem nýlega auglýsti á Facebook-síðunni Gamlar ljósmyndir eftir vísbendingum um afdrif verksins.

Hrekkjusvínin, sem sýnir tvo drengi hrekkja stúlku, var á úti­sýn­ingu á Skóla­vörðuholt­inu árið 1972 og var svo síðar þetta sama ár, sent ásamt öðrum verk­um til Nes­kaupstaðar og svo til Vest­manna­eyja sem hluti af átakinu List um landið. „Við systkin­in höf­um séð mynd­ir af verk­inu á báðum stöðum en í dag vit­um við ekk­ert um verkið,“ skrif­aði Stefán í Facebook-fyr­ir­spurn sinni. 

Stefán segir í samtali við mbl.is í dag að hann hafi þó fengið eitt bréf frá konu sem hafi bent honum á gosið sem hófst í Vestmannaeyjum 23. janúar 1973. „Hún spurði hvort ekki gæti verið að verkið hefði bara farið undir hraun, hafi það enn verið í Eyjum þegar það byrjaði að gjósa. Þetta er eins líkleg skýring og hver önnur og jafnvel líklegri,“ segir Stefán og kveður það vissulega útskýra af hverju ekkert hafi spurst til Hrekkjusvínanna síðar.

Það var einhvern tímann eftir lát móður þeirra árið 2009, þegar systkinin voru að fara í gegnum verk hennar sem spurn­ingin um hvar Hrekkjusvínin væru niðurkomin skaut upp kollinum.

„Það fer ekk­ert á milli mála ef þetta er ein­hvers staðar til, þá þarf ekk­ert að tékka á því hvort að mamma gerði það, því hún er ein­stök í heim­in­um,“ sagði Stefán í viðtali við mbl.is fyrr í mánuðinum og vís­aði þar til þess hversu auðkenn­an­leg­ar fíg­úr­urn­ar í verk­um móður hans séu. Hver og ein sé um 150-170 sm há. „Þannig að þetta er ekk­ert smá­verk,“ sagði hann þá.

Man eftir þeim á túninu í Eyjum

„Konan sagðist hafa þekkt fólk í Vestmannaeyjum og það myndi ekki eftir því að þessar styttur hefðu verið neins staðar annars staðar en á túninu þar sem þær voru sýndar,“ segir Stefán. Verkin komu til Eyja í ágúst - september 1972 og því getur vel verið að það hafi ílengst þar fram í veturinn.

„Vorum einhvern tímann að tala um hvort Hrekkjusvínin hefðu komið aftur til Reykjavíkur með Ríkisskipum og það er eins enginn hafi hugsað um að senda verkið af stað,“ segir Stefán og kveðst vissulega hafa kosið að frétta frekar af Hrekkjusvínunum inni í geymslu einhvers staðar.

„Við verðum þó líklega bara að kyngja því að þetta sé það sem hafi gerst. Það eru til myndir af verkinu og við vitum að það fór til Eyja, en síðan er það bara týnt og tröllum gefið.“

Sé einhverjum kunnugt um afdrif Hrekkjusvínanna er sá beðinn um að hafa samband við Stefán í gegnum net­fangið stand@mi.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert