„Enn þá jafn dularfullt“

Jón Þröstur á gangi skömmu eftir að hann gekk út …
Jón Þröstur á gangi skömmu eftir að hann gekk út af hóteli sínu laugardaginn 9. febrúar. Úr öryggismyndavél

Fjölskylda og vinir Jóns Þrastar Jónssonar, sem hvarf sporlaust í Dublin 9. febrúar, binda miklar vonir við að ábendingar sem lögreglan er að vinna eftir verði til þess að írskar björgunarsveitir verði kallaðar út til að leita Jóns Þrastar.

Fjölskyldan átti stöðufund með írsku lögreglunni í dag. „Staðan er nákvæmlega sú sama og síðustu daga. Þeir eru enn þá að vinna úr og sannreyna þær ábendingar sem bárust eftir leitina og þættina,“ segir Davíð Karl Wiium, bróðir Jóns Þrastar.  

„Þetta er frekar „frústrerandi“ en við reynum að vera þolinmóð. Lögreglan er að reyna að útiloka ákveðna hluti og fara yfir nýjar leiðbeiningar,“ bætir hann við.

Aðstoð frá björgunarsveitum myndi skipta sköpum

Davíð segir að fjölskyldan ætli að sýna þolinmæði út morgundaginn. „Ef það er ekkert að gerast þá skipuleggjum við stóra leit aftur,“ segir Davíð. Leitin myndi fara fram í næstu viku eða nær þarnæstu helgi, að sögn Davíðs, og yrði með svipuðu sniði og umfangsmikil leit sem skipulögð var síðasta laugardag.

Þá segir hann að það myndi skipta sköpum ef björgunarsveitarmenn tækju þátt í leitinni. „Þeir eru mun hæfari í þetta en við, með betri búnað og sérþjálfaðan mannskap.“

Fjölskylda og vinir Jóns Þrastar eru staðráðin í að gefast ekki upp, en Davíð viðurkennir að það sé erfitt að fá litlar sem engar nýjar upplýsingar svo dögum skiptir. „Þetta er erfitt og þreytandi en lögreglan er alltaf til taks og við heyrumst lágmark daglega. En þetta er enn þá jafn dularfullt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert