8% færri gistu á hótelum en í fyrra

mbl.is/​Hari

Gistinætur ferðamanna á öllum gististöðum í janúar síðastliðnum voru um 543.000, en þær voru um 566.000 í sama mánuði fyrra árs. Gistinætur á hótelum og gistiheimilum voru 323.000. Gistinætur í íbúðagistingu, farfuglaheimilum, tjaldsvæðum o.þ.h. voru 116.000 og um 104.000 í gegnum vefsíður á borð við Airbnb. Þetta kemur fram í nýjum tölum frá Hagstofu Íslands.

Heildarfjöldi gistinátta í janúar dróst því saman um 4,1% milli ára, þar af var 4,5% samdráttur á hótelum og gistiheimilum, 0,9% fækkun á öðrum tegundum gististaða og 6% samdráttur á stöðum sem miðla gistingu gegnum Airbnb og svipaðar síður. Einnig voru gistinætur erlendra ferðamanna um 6.000 í bílum utan tjaldsvæða og um 16.000 hjá vinum og ættingjum, í gegnum húsaskipti eða annars staðar þar sem ekki var greitt sérstaklega fyrir gistingu.

Gistinætur á hótelum í janúar síðastliðnum voru 266.400, sem er 8% fækkun frá sama mánuði árið áður. Samdráttur var í fjölda gistinátta á höfuðborgarsvæðinu, Suðurnesjum og Suðurlandi, en fjölgun í öðrum landshlutum. Um 70% allra gistinátta voru á höfuðborgarsvæðinu, eða 187.300.

Á tólf mánaða tímabili, frá febrúar 2018 til janúar 2019, var heildarfjöldi gistinátta á hótelum um 4.449.000, sem er 4% aukning miðað við sama tímabil árið áður.

Herbergjanýtingin undir 50%

Herbergjanýting í janúar 2019 var 49,9%, sem er lækkun um tæp 6 prósentustig frá janúar 2018 þegar hún var 55,8%. Á sama tíma hefur framboð gistirýmis aukist um 2,1% mælt í fjölda herbergja. Nýtingin í janúar var best á höfuðborgarsvæðinu, eða 66,3%.

Um 91% gistinátta á hótelum var skráð á erlenda ferðamenn, eða 242.800 sem er 8% færra en í janúar 2018. Bretar voru með flestar gistinætur (81.300), síðan Bandaríkjamenn (57.200) og Kínverjar (20.200) en gistinætur Íslendinga voru 23.500.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert