Ákærður fyrir meiri háttar skattalagabrot

Héraðssaksóknari hefur ákært rúmlega fimmtugan karlmann fyrir meiri háttar brot gegn skattalögum og lögum um bókhald í rekstri einkahlutafélags.

Manninum er gefið að sök að hafa ekki staðið ríkissjóði skil á virðisaukaskatti samtals að fjárhæð tæplega 7,8 milljónir króna og látið undir höfuð leggjast að færa lögbundið bókhald fyrir rekstrarárin 2013 og 2014 og vanrækt að varðveita fylgiskjöl og önnur bókhaldsgögn með fullnægjandi hætti vegna sömu rekstrarára.

Er maðurinn sakaður um að hafa nýtt og ráðstafað umræddu fé í þágu rekstrar einkahlutafélagsins og í eigin þágu. Er þess krafist að maðurinn verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert