Gleði, galsi og gallsteinar

Að mati Daníels Freys Jónssonar leiklistarrýnis Morgunblaðsins er uppfærsla Leikfélags …
Að mati Daníels Freys Jónssonar leiklistarrýnis Morgunblaðsins er uppfærsla Leikfélags Akureyrar á Gallsteinum afa Gissa „fyrst og fremst ákaflega góð skemmtun fyrir alla fjölskylduna.“ Ljósmynd/Auðunn Níelsson

„Fjörið er í fyrirrúmi, sýningin er drifin áfram af fádæma krafti, tónlistin glymur og það er gleði og gaman. Já, það er kátt í höllinni og á nokkrum stöðum táraðist ég bókstaflega úr hlátri þegar leikarar fóru á kostum í galsanum. Leikmynd, lýsing og danshreyfingar mynda órofa heild. Litrík leikmyndin er nokkuð einföld en með því að aflaga horn og hlutföll tekur hún á virkan hátt þátt í ýktum frásagnarmátanum,“ segir í leikdómi Daníels Freys Jónssonar um Gallsteina afa Gissa í uppfærslu Leikfélags Akureyrar sem birtist í Morgunblaðinu í dag. 

Sýningin er byggð á skáldsögunni Sagan um gallsteina afa Gissa eftir Kristínu Helgu Gunnarsdóttur sem út kom 2002, en Kristín Helga og Karl Ágúst Úlfsson skrifuðu handrit sýningarinnar sem Ágústa Skúladóttir leikstýrir. 

Daníel hrósar allri umgjörð sýningarinnar og frammistöðu leikaranna, en skrifar svo: „Eitt er það þó sem truflaði mig við þessa sýningu. Afi Gissi er gamall sjóari með húðflúr af ýmsum konum út um allan skrokk, gömlum „sigrum“ úr hafnarborgum víða um heim, og styttir sér stundir á spítalanum við að segja hinum sjúklingunum kvennafarssögur af sjálfum sér, að því er virðist í því augnamiði að bæta nýrri mynd í safnið. Mamman ber ábyrgð á heimilinu, börnum, matseld og eiginmanninum líka. Það breytist ekki við óskina þó óneitanlega sinni hippinn þessu öllu á annan veg en herforinginn. Pabbinn sem er fjarrænn og tilfinningasljór fyrir óskina er aðallega sár yfir því að börnin nenni ekki að leika við hann eftir hana,“ skrifar Daníel Freyr og heldur áfram stuttu síðar: „Mögulega er þetta hugsunarleysi en með því að ríghalda í þessar hefðbundnu og gamaldags staðalmyndir um kynhlutverkin í samfélaginu er tækifærinu til að gera verkið djarfara, nútímalegra og gefa því meira erindi varpað fyrir róða. Það er spurning hversu hollt það er að halda þessum úreltu fyrirmyndum að börnum.“ Eftir standi samt að sýningin, sem hann gefur þrjár stjörnur, sé „fyrst og fremst ákaflega góð skemmtun fyrir alla fjölskylduna.“

Leikdóminn má lesa í heild sinni í Morgunblaðinu í dag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert