Heimsmeistari í brids féll á lyfjaprófi

Geir Helgemo féll á lyfjaprófi og er því meinað að …
Geir Helgemo féll á lyfjaprófi og er því meinað að taka þátt í bridge-keppnum í heilt ár.

Alþjóðabridssambandið, WBF, hefur úrskurðað að Geir Helgemo heimsmeistari hafi brotið gegn samþykktum sambandsins þar sem hann féll á lyfjaprófi í kjölfar heimsmeistaramóts í Orlando í Bandaríkjunum síðastliðið haust, að því er segir í úrskurði sambandsins.

Helgemo er norskur en hefur spilað fyrir hönd Mónakó síðasta áratug og er með lögheimili þar. Honum er gert að skila öllum verðlaunum, sem hann vann í mótum á vegum WBF frá árinu 2018 og bannað að keppa í heilt ár auk þess sem honum er gert að greiða sambandinu 3.659 evrur vegna sakarkostnaðar, jafnvirði hálfrar milljónar íslenskra króna.

Efnin sem fundust við lyfjapróf voru framleitt testósterón og Clomifene, sem notuð eru til þess að auka frjósemi.

Í samtali við VG vegna málsins segir Allan Livgård, framkvæmdastjóri Bridssambands Noregs, að efnin séu ekki til þess fallin að hafa áhrif á frammistöðu keppenda. „Það eru margir í bridsheiminum sem gera athugasemdir við úrskurðinn,“ er haft eftir Livgård.

Ástæða þess að krafist er að keppendur í brids undirgangist lyfjapróf er að Alþjóðabridssambandið hefur sóst eftir því að fá brids viðurkennt sem ólympíuíþrótt og á aðild að Alþjóðlega ólympíusambandinu sem krefst þess að öll aðildarsambönd láti framkvæma þessi próf og taki mið af lyfjum á lista þess, óháð því hvort þau kunni að hafa áhrif á frammistöðu keppenda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert