Krefur fleiri verkalýðsforkólfa um bætur

Drífa Snædal, forseti ASÍ, er eitt þeirra sem krafin eru …
Drífa Snædal, forseti ASÍ, er eitt þeirra sem krafin eru um skaðabætur og afsökunarbeiðni. mbl.is/Valli

Fyrirtækið Menn í vinnu ehf. hefur krafið fimm forystumenn í verkalýðshreyfingunni um afsökunarbeiðni og miskabætur vegna ummæla sem þeir hafa látið falla um fyrirtækið. Menn í vinnu, sem er starfsmannaleiga, hafa verið talsvert í fjölmiðlum að undanförnu vegna ásakana nokkurra starfsmanna þess um að þeir hafi ekki fengið greidd laun.

Lögmaður Manna í vinnu, Jóhannes S. Ólafsson, vísaði því á bug að starfsmennirnir, sem koma frá Rúmeníu, hafi á nokkurn hátt verið hlunnfarnir. Hvorki varðandi laun né annað. Öll laun hafi verið greidd inn á bankareikninga mannanna og vísað í fylgigögn með bréfunum því til staðfestingar. Veittur er frestur til 8. mars til að verða við kröfunni.

Forystumennirnir eru Drífa Snædal, forseti Alþýðusambands Íslands, Halldór Grönvold, aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ, María Lóa Friðjónsdóttir, sérfræðingur hjá ASÍ, Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar, og Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar. Þá voru þrjú önnur bréf send út í kvöld að sögn Jóhannesar.

Drífa er krafin um afsökunarbeiðni á vefsíðu ASÍ og í fjölmiðlum á ummælum hennar og 800 þúsund króna skaðabætur auk lögmannskostnaðar upp á 200 þúsund krónur. Halldór er krafinn um afsökunarbeiðni að sama skapi og eina milljón króna í skaðabætur auk lögmannskostnaðar upp á 200 þúsund krónur.

María Lóa er krafin um afsökunarbeiðni og 600 þúsund króna skaðabætur til fyrirtækisins og 300 þúsund króna skaðabætur til eiganda þess, Höllu Rutar Bjarnadóttur, auk lögmannskostnaðar upp á 150 þúsund krónur. 

Viðar er krafinn um afsökunarbeiðni á vefsíðu Eflingar og birtingu í fjölmiðlum og eina milljón króna í skaðabætur auk 250 þúsund króna í lögmannskostnað. Sólveig er krafin um afsökunarbeiðni og 600 þúsund krónur í skaðabætur auk 150 þúsund króna í lögmannskostnað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert