„Þær eru ósýnilegar“

„Þær eru svolítið ósýnilegar,“ segir Valgerður Árnadóttir, sem hefur ekið Eflingarbílnum undanfarna daga og safnað utankjörfundaratkvæðum um hvort ræstingakonur á hótelum á hótelum leggi niður störf 8. mars á alþjóðlegum baráttudegi kvenna.

Það sýni sig þegar rætt sé við hótelstjórnendur sem segi starfsandann góðan en í ljós komi að þeir hafi í raun lítið talað við þessa starfsmenn sína.

Í myndskeiðinu er rætt við Valgerði sem var að safna atkvæðum félagsmanna í Eflingu rétt eftir hádegi í dag.

Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar, segir í samtali við mbl.is þátttöku í atkvæðagreiðslu félagsins vegna boðaðra verkfallsaðgerða 8. mars hafa verið með ágætum.

Hann segir starfsmenn gjarnan hafa verið búna að mynda raðir fyrir utan hótel og gistiheimili þegar kosningabíll Eflingar mætir á staðinn. „Félagsmenn hafa haft samband við skrifstofu Eflingar til þess að fá bílinn aftur, enda mikið um vaktavinnu í þessum geira,“ segir framkvæmdastjórinn.

Formlegar tölur um þátttöku liggja ekki fyrir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert