Átta af hverjum tíu krónum til einkarekinna miðla

Tekjur af útgáfu blaða og tímarita hafa lækkað um hátt …
Tekjur af útgáfu blaða og tímarita hafa lækkað um hátt í helming að raunvirði frá árinu 2006. mbl.is

Tekjur íslenskra fjölmiðla lækkuðu lítillega á árinu 2017 frá fyrra ári, eða um tvo hundraðshluta reiknað á föstu verðlagi. Samanlagðar tekjur fjölmiðla námu 27,9 milljörðum króna. Tekjur af notendagjöldum voru tæpir 15 milljarðar og af auglýsingum og kostun rúmlega 13 milljarðar króna. Samanlagðar tekjur fjölmiðla árið 2017 eru um 18 af hundraði lægri en er best lét árin 2006 og 2007. Helmingur tekna fjölmiðla fellur til sjónvarps og fjórðungur til dagblaða og vikublaða, eða fjórðungur. Hlutdeild einkarekinna fjölmiðla nam 78 prósentum af samanlögðum tekjum á fjölmiðlamarkaði og 84 prósent af auglýsingatekjum á móti 22 og 16 prósenta hlut Ríkisútvarpsins. Þetta kemur fram í frétt Hagstofu Íslands. 

Tekjurnar sambærilegar því sem var um aldamótin

Umtalsverður samdráttur varð í tekjum fjölmiðla (þ.e. dag- og vikublaða og tímarita og annarra blaða, hljóðvarps og sjónvarps og vefmiðla) í kjölfar efnahagshrunsins 2008. Frá árunum 2007 til 2010 lækkuðu tekjur fjölmiðla um ríflega fjórðung reiknað á verðlagi ársins 2017. Síðan þá hafa tekjurnar aukist lítillega. Þær eru nú sambærilegar við það sem var í kringum aldamótin og næstu árin þar á eftir.

Þrátt fyrir samdrátt í tekjum varð þetta minni samdráttur hérlendis en hjá fjölmiðlum í öðrum löndum. Mestu munaði um samdrátt í auglýsingatekjum, en þær eru nú 28 af hundraði lægri en þegar þær voru hæstar (2007), reiknað á föstu verðlagi. Á sama tíma hafa áskriftartekjur lítillega hækkað eða um einn af hundraði.

Langmestur samdráttur hjá dagblöðum og tímaritum

Tekjusamdráttarins gætir á ólíkan hátt eftir miðlum. Hann er tilfinnanlega mestur í útgáfu blaða og tímarita, sem rekja má að miklu leyti til breyttrar fjölmiðlanotkunar með tilkomu nýrra og fjölbreyttari leiða við miðlun sjónvarps- og myndefnis, sífellt aukinnar netnotkunar almennings og greiðslu auglýsenda fyrir birtingu auglýsinga á erlendum vefmiðlum. Tekjur af útgáfu blaða og tímarita hafa þannig lækkað um hátt í helming að raunvirði frá árinu 2006. Á sama tíma hafa tekjur hljóðvarps aukist um 13 af hundraði og sjónvarps um fjögur prósent, á meðan tekjur vefmiðla hafa meira en fjórfaldast á föstu verðlagi.

Breytt fjölmiðlaneysla almennings endurspeglast að nokkru í breyttri skiptingu á tekjum fjölmiðla frá árinu 1998. Breytingar á skiptingu tekna milli ólíkra tegunda fjölmiðla hafa verið meiri hin seinni ár en þær voru framan af tímabilinu. Árið 2017 féll helmingur tekna fjölmiðla til sjónvarps, í stað 39 prósenta árið 1998. Hlutur hljóðvarps hefur verið nær óbreyttur um langt árabil, eða 13 af hundraði árið 2017, samanborðið við 12 prósent 1998. Hlutdeild tímarita hefur farið úr átta í fimm af hundraði á sama tíma. Samdrátturinn hefur verið verið mestu í útgáfu dag- og vikublaða, en hlutdeild þeirra í tekjum fjölmiðla lækkaði úr 41 í 26 af hundraði. Vefmiðlar hafa hægt og bítandi aukið hlut sinn á sama tímabili og er nú svo að sjö hundraðshlutar fjölmiðlatekna renna til þeirra og hefur það hlutfall haldist stöðugt frá árinu 2015.

78 krónur til einkarekinna en 22 til RÚV

Af hverjum hundrað krónum sem runnu til fjölmiðla árið 2017 féllu 78 í hlut einkarekinna miðla á móti 22 krónum til Ríkisútvarpsins. Af tæplega 28 milljarða króna tekjum fjölmiðla árið 2017 runnu 21,7 milljarðar króna til fjölmiðla í einkaeigu á móti tæplega 6,2 milljörðum króna til Ríkisútvarpsins. Frá árinu 1997 hefur hlutur Ríkisútvarpsins í heildartekjum fjölmiðla lækkað úr 26 af hundraði í 22 af hundraði árið 2017.

Fyrstu árin eftir að einkaréttur Ríkisútvarpsins til útvarpsendinga var afnuminn í ársbyrjun 1986 lækkaði hlutdeild þess í tekjum hljóðvarps og sjónvarps hratt með tilkomu einkarekinna hljóðvarps- og sjónvarpsstöðva. Frá aldamótum hefur hlutdeild Ríkisútvarpsins á markaði haldist nær óbreytt. Árið 2017 féllu um 58 af hundraði tekna af hljóðvarpi og um 29 af hundraði af tekjum af sjónvarpsstarfsemi í hlut Ríkisútvarpsins, eða 35 af hundraði af samanlögðum tekjum hljóðvarps- og sjónvarps.

Árið 2017 runnu 11 milljarðar króna af auglýsingatekjum fjölmiðla til einkaaðila á móti tveimur milljörðum króna sem féllu í hlut Ríkisútvarpsins. Hlutdeild Ríkisútvarpsins í auglýsingatekjum fjölmiðla það ár var 16 af hundraði. Á sama tíma nam hlutdeild þess í auglýsingatekjum hljóðvarps 34 af hundraði og 48 af hundraði í auglýsingatekjum sjónvarps. Samanlögð hlutdeild Ríkisútvarpsins á útvarpsmarkaði árið 2017 var 41 af hundraði.

Frá því einkaréttur Ríkisútvarpsins var afnuminn í ársbyrjun 1986 og starfsemi einkarekinna hljóðvarps- og sjónvarpsstöðva hófst lækkaði hlutdeild Ríkisútvarpsins í auglýsingatekjum eðlilega umtalsvert. Frá hruni jókst hlutur þess á ný í samanlögðum auglýsingatekjum sjónvarps á ný. Hlutdeild þess hefur frá árinu 2010 að mestu staðið í stað, eða verið milli 45 og 48 af hundraði. Hins vegar hefur hlutur Ríkisútvarpsins í auglýsingatekjum hljóðvarps lækkað talsvert frá 2013, eða úr 45 í 34 af hundraði, segir í frétt Hagstofu Íslands.

Hagstofa Íslands
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert