Tveir mánuðir fyrir heimilisofbeldi

Karlmaður var í gær dæmdur í héraðsdómi í tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir líkamsárás gegn fyrrverandi sambýliskonu sinni og fyrir ölvunarakstur. Játaði maðurinn að hafa slegið konuna ítrekað í höfuðið og ýtt henni í gólfið með þeim afleiðingum að hún hlaut mar og áverka á auga og hálsi auk mjóbaksverkja.

Samkvæmt dóminum játaði maðurinn brot sitt skýlaust og þykir brotið sannað með játningu hans. Hann hefur ekki áður verið dæmdur til refsingar. Horft var til þess við ákvörðun refsingarinnar að maðurinn veittist þrisvar að konunni á innan við sólarhring. Er það metið honum til refsiþyngingar.

Manninum var jafnframt gert að greiða konunni 250 þúsund krónur í miskabætur og þá var hann sviptur ökurétti í tvo mánuði, en hann hafði verið tekinn af lögreglu með 0,5 prómill í blóði þar sem hann ók bifreið sinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert