Ökumenn gæti sín á furðuverum á ferð

Krakkar í búningum á öskudag í Kringlunni.
Krakkar í búningum á öskudag í Kringlunni. mbl.is/Árni Sæberg

Samgöngustofa biður ökumenn að gæta fyllstu varúðar í umferðinni í dag, öskudag. Bendir Samgöngustofa á að fjöldi barna verði á ferðinni eftir hádegi tilbúin að taka lagið fyrir góðgæti.

Eru ökumenn og aðrir vegfarendur beðnir að hafa sérstakar gætur á þegar ekið er um götur Reykjavikur og bæja um allt land, að því er segir í tilkynningunni.

Börnin fari af stað um hádegi og því sé mikilvægt, eins og alltaf, að aka varlega inni í íbúðahverfunum og við skólana. Þá sé veðrið víða gott, en sólin sé þó lágt á lofti og geti blindað ökumenn.

Samgöngustofa nefnir þá að þeim börnum sem þangað komi og syngi fyrir starfsfólk verði boðið upp á súkkulaði og endurskinsmerki fyrir góðan söng.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert