Rétta af kynjaskekkju á Wikipedia

Háskólarnir og mennta- og menningarmálaráðuneytið hvetja nemendur og starfsfólk til …
Háskólarnir og mennta- og menningarmálaráðuneytið hvetja nemendur og starfsfólk til að taka höndum saman á Alþjóðlegum baráttudegi kvenna og gera konur sýnilegar og stuðla að betri kynningu og umfjöllun um þær á netinu. mbl.is/Ómar Óskarsson

Háskóli Íslands, Háskólinn í Reykjavík, Háskólinn á Akureyri og Listaháskóli Íslands í samstarfi við mennta- og menningarmálaráðuneytið og UNESCO-nefndina á Íslandi standa fyrir viðburðinum #wiki4women í tilefni af Alþjóðlegum baráttudegi kvenna, 8. mars, en honum er fagnað víða um heim.

Markmiðið er að bregðast við ákalli frá UNESCO og Wikimedia Foundation og stuðla að betri kynningu og umfjöllun um konur á upplýsingasíðum Wikipedia.

„Það er áberandi mikil kynjaskekkja í umræðunni og við eigum ótrúlega margar konur sem hafa gert flotta hluti en fá litla sem enga umfjöllun,“ segir Laufey Axelsdóttir, stundakennari við Háskóla Íslands, sem sér um skipulagningu #wiki4women á Íslandi.

Háskólarnir og mennta- og menningarmálaráðuneytið hvetja nemendur og starfsfólk til að taka höndum saman og breyta þessu á Alþjóðlegum baráttudegi kvenna, gera konur sýnilegar og stuðla að betri kynningu og umfjöllun um þær á netinu.

Markmið #Wiki4women er að bregðast við ákalli frá UNESCO og …
Markmið #Wiki4women er að bregðast við ákalli frá UNESCO og Wikimedia Foundation og stuðla að betri kynningu og umfjöllun um konur á upplýsingasíðum Wikipedia. Ljósmynd/UNESCO

Aðeins 19% greina á íslensku á Wikipedia um konur

Samkvæmt nýrri talningu UNESCO eru 12.152 greinar á Wikipedia um Íslendinga. Af þeim eru tæplega 19% um íslenskar konur en um 81% um íslenska karla. Sjónum verður sérstaklega beint að konum sem tengjast málefnasviðum UNESCO, þ.e. menntun, menningu, listum, fjölmiðlum, vísindum og upplýsingatækni.

Laufey segir að það sé lítið mál að finna konur á öllum sviðum og er þátttakendum frjálst að velja konur til að skrifa um en skipuleggjendur hafa einnig tekið saman lista yfir konur og heimildir fyrir þá sem vilja.

Sams konar viðburður var haldinn í fyrra og í síðustu viku tóku Ada, hagsmunafélag kvenna í upplýsingatækni við HÍ, og Feministafélag HÍ forskot á sæluna og stóðu fyrir „wikithon“ þar sem fólk kom saman og betrumbætti eða skrifaði nýjar greinar um konur á Wikipedia á íslensku eða ensku.

Viðburðurinn hefst í Háskóla Íslands klukkan 15 í Gimli 102 með ávarpi Jóns Atla Benediktssonar rektors og mun hann einnig rita fyrstu færsluna. Laufey býst við því að fyrir valinu hjá rektor verði fræðikona og frumkvöðull úr háskólasamfélaginu sem ekki hefur verið fjallað um.

Viðburðinum lýkur um klukkan 17 og boðið verður upp á pítsur og gos. Viðburður í Háskólanum í Reykjavík hefst kl. 12 í Sólinni (opið aðalsvæði) og lýkur kl. 14 með pítsum og gosi. Viðburður í Háskólanum á Akureyri hefst kl. 15 í N202 og lýkur kl. 17 með pítsum og gosi. Allir geta tekið þátt og skráð inn færslur, hvort sem það mætir á viðburðinn eða ekki.  

Laufey segir að langtímamarkmiðið sé að jafna kynjahlutfallið. „Við lítum á það sem framtíðarvinnu og að þetta verði árviss viðburður. Við ætlum að reyna að halda utan um tölurnar og fylgjast með árangrinum.“

Nánari upplýsingar um #wiki4women á Alþjóðlegum baráttudegi kvenna má nálgast á Facebook. 

Wiki4Women hefst í Háskólanum í Reykjavík kl. 12:00, 8. mars, …
Wiki4Women hefst í Háskólanum í Reykjavík kl. 12:00, 8. mars, í Sólinni og lýkur kl. 14:00 með pítsum og gosi. Ljósmynd/HR
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert