Mun betri þátttaka en við þorðum að vona

Ragnar Þór Ingólfsson á upplýsingafundi VR í gærkvöldi.
Ragnar Þór Ingólfsson á upplýsingafundi VR í gærkvöldi. mbl.is/​Hari

Þátttaka í atkvæðagreiðslu um verkfallsboðun hjá félagsmönnum VR sem hófst í gær hefur verið framar vonum, að sögn Ragnars Þórs Ingólfssonar, formanns VR.

Atkvæðagreiðsla hófst í gær um aðgerðir sem beinast að 20 hótel- og hópbifreiðafyrirtækjum sem munu ná til um 1.000 félagsmanna. Krafist er 20% þátttöku svo atkvæðagreiðslan sé gild og fyrsta sólarhringinn hefur þátttakan þegar náð 15% að sögn Ragnars.

Það þýðir að um 150 af þeim 1.000 sem aðgerðirnar ná til hafa þegar greitt atkvæði, en atkvæðagreiðslan stendur yfir til 12. mars.

„Þetta er mun betri útkoma en við þorðum að vona, sérstaklega í ljósi þess að við eigum eftir að halda fleiri fundi með starfsfólki á þeim stöðum sem aðgerðirnar ná til. Miðað við þá stemningu sem við skynjum í okkar baklandi þá finnst mér það gefa til kynna að líkurnar á því að aðgerðirnar verði samþykktar séu miklar,“ segir Ragnar við mbl.is.

Hefði viljað sjá fleiri á upplýsingafundi

VR hélt upplýsingafund fyrir félagsmenn sína á Hilton Reykjavík Nordica hóteli í gærkvöldi. Samkvæmt ljósmyndara mbl.is sem var á staðnum virtist mæting vera heldur dræm og Ragnar tekur undir það.

„Auðvitað hefði maður viljað sjá fleiri, en þetta getur líka verið merki um það að félagsmenn okkar eru vel upplýstir um stöðuna. Þarna buðum við bara hinum almenna félagsmanni að koma og fá upplýsingar um aðgerðirnar. Við erum með sér fundi fyrir þá sem aðgerðirnar ná til,“ segir Ragnar.

Aðspurður hvernig greiðslum úr verkfallssjóði verði háttað ef til verkfalls kemur segir Ragnar að launatap vegna verkfallsaðgerða verði tryggt að fullu, og ólíklegt sé að krafist verði mætingar á baráttufundi.

Frá upphafi upplýsingafundar VR í gærkvöld.
Frá upphafi upplýsingafundar VR í gærkvöld. mbl.is/​Hari

Vonar að hægt sé að forðast átök

Ragnar segir að þrátt fyrir að hann reikni með því að verkfallsaðgerðir VR verði samþykktar sé enn haldið í vonina að ekki þurfi að grípa til aðgerða.

„Markmiðið með þessu öllu saman er að þrýsta á samningsaðila að koma að borðinu. Ég vona svo sannarlega að ekki komi til átaka, en miðað við hvernig staðan er í dag og það tilboð sem við höfum fyrir framan okkur þá virðist það því miður vera raunin,“ segir Ragnar Þór Ingólfsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert