Fleiri kallaðir til vinnu á morgun

Grand Hótel er stærsta hótelið hjá Íslandshótelum.
Grand Hótel er stærsta hótelið hjá Íslandshótelum. mbl.is/Baldur

„Það mun taka okkur svolítinn tíma að ná dampi. Við gerum ráð fyrir að morgundagurinn verði ansti strembinn,“ segir Davíð Torfi Ólafsson, framkvæmdastjóri Íslandshótela. Á morgun segir hann að sennilega verði kallaðir inn fleiri þrifastarfsmenn en venjulega, til þess að vinna upp skekkjuna.

Hann segir að flest hafi annars gengið samkvæmt áætlun í rekstri hótelanna í verkfalli þerna í dag. „Þetta var ekkert panikkástand heldur bara unnið í góðri sátt við starfsfólkið okkar,“ segir hann.

Hann sjálfur, eigendur og nátengd fjölskylda eigenda unnu saman að því að koma herbergjum í stand fyrir þá sem innrituðust á hótelin í dag. Íslandshótel reka 6 hótel í Reykjavík, með ríflega 1000 herbergjum samtals. „Þeir sem máttu ganga í störf brugðust bara mjög vel og buðu fram sína aðstoð,“ segir hann.

Davíð gerir ráð fyrir að morgundagurinn fari í að jafna út aukna álagið sem myndaðist við verkfallið í dag. „Þetta verður erfiðara en hefðbundinn laugardagur,“ segir hann. Hann segir þá hægt að gera ráð fyrir því, að einhverjir verði kallaðir inn aukalega til að vinna og að einhverjir hafi jafnvel þegar boðist til þess.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert