Sviðsett stórslys í Hafnarfirði í morgun

Þó sárið á þessum læknanema sé raunverulegt er til allrar …
Þó sárið á þessum læknanema sé raunverulegt er til allrar hamingju einungis um gervi að ræða. mbl.is/​Hari

Krambúleraðir og slasaðir sjúklingar, sumir í geðshræringu og aðrir meðvitundarlausir, voru á meðal þess sem mætti ljósmyndara mbl.is þegar hann sótti slökkvistöðina í Hafnarfirði heim upp úr hádegi í dag. Sem betur fer var ekki um raunverulegt stórslys að ræða, heldur fór þar fram stórslysaæfing hjá læknanemum á Landspítalanum. Nemendur af öllum sex árum læknanámsins tóku þátt í æfingunni og gekk hún vel, þó að auðvitað hafi nemendur gert einhver mistök. Til þess er þó leikurinn gerður, segir læknaneminn Jón Erlingur Stefánsson í samtali við mbl.is nú stuttu eftir að æfingu lauk.

Læknanemar eru eftir daginn í dag betur búnir til að …
Læknanemar eru eftir daginn í dag betur búnir til að takast á við ógnvænlegar aðstæður sem þessar. mbl.is/​Hari

Læknanemar láta leikhæfileikana skína

Æfingin fór þannig fram að tilfellum var dreift niður á sjúklinga, sem leiknir voru af fyrsta og annars árs nemum og gegndu nemendur á efri árum hin ýmsu hlutverk í æfingunni. Sem dæmi sáu nemendur af fjórða ári um að flokka sjúklinga eftir því hversu brátt hvert tilvik var. „Sumir flokkast sem rauðir, og eru til dæmis meðvitundarlausir eða mjaðmagrindarbrotnir á meðan aðrir flokkast sem grænir, sem eru þá kannski ruglaðir eða í geðshræringu, en geta gengið óstuddir á svokallað söfnunarsvæði slasaðra.“

Aðspurður hvort nemendum hafi verið fengið í hendurnar handrit segir Jón Erlingur að leikurunum sé í sjálfsvald sett að túlka sín tilvik. „Menn mega leika sér svolítið með sitt hlutverk,“ segir hann og bætir við að veitt verðlaun fyrir besta leikinn. „Það hvetur fólk svolítið til að hugsa út fyrir kassann. Sumir sem eru að leika sjúklinga eru jafnvel farnir að leika lækna með hinum,“ segir hann að auki og hlær.

Ekki er ljóst hvað það var sem kallaði þennan áhyggjusvip …
Ekki er ljóst hvað það var sem kallaði þennan áhyggjusvip fram á læknanemunum. Reikna má með að það hafi þó ekki verið mjög alvarlegt, enda einungis um æfingu að ræða. mbl.is/​Hari
Þessi unga kona var ekki sein á öskudagsball, heldur mætt …
Þessi unga kona var ekki sein á öskudagsball, heldur mætt tímanlega á stórslysaæfingu. mbl.is/​Hari

Allir sáttir með daginn

Að auki við samstarf læknanemanna og slökkviliðsins lagði björgunarsveitin Ársæll til liðsfólk sem sá um ýmsa fræðslu, svo sem hvernig eigi að setja fólk á sjúkrabörur og hvernig eigi að bráðaflokka sjúklinga. 

Spurður hvort landsmenn séu öruggir undir verndarvæng lækna framtíðarinnar svarar Jón Erlingur: „Ég get ekki sagt annað,“ og bætir við að allir hafi verið sáttir með daginn, bæði nemendur og kennarar. 

Liðsfólk úr björgunarsveitinni Ársæli sáu m.a. um fræðslu.
Liðsfólk úr björgunarsveitinni Ársæli sáu m.a. um fræðslu. mbl.is/​Hari
Nemendur af öllum árum læknanámsins tóku þátt í æfingunni.
Nemendur af öllum árum læknanámsins tóku þátt í æfingunni. mbl.is/​Hari
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert