Eignarhald Landsnets „óheppilegt“

Þórdís Kolbrún tilkynnti fyrst um áformin um kaup ríkisins á …
Þórdís Kolbrún tilkynnti fyrst um áformin um kaup ríkisins á eignarhlutnum á ársfundi Landsvirkjunar í lok febrúar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar, hefur skipað starfshóp sem leiða mun viðræður vegna kaupa ríkisins á eignarhlut Landsvirkunar, RARIK, Orkubús Vestfjarða og Orkuveitu Reykjavíkur í Landsneti.

Þetta kom fram í máli Þórdísar Kolbrúnar í ávarpi hennar á vorþingi Landsnets í morgun. Hilmar Gunnlaugsson hæstaréttarlögmaður veitir starfshópnum forystu og stefnt er að því að vinnu hans ljúki fyrir árslok 2019.

Þórdís Kolbrún tilkynnti fyrst um áformin um kaup ríkisins á eignarhlutnum á ársfundi Landsvirkjunar í lok febrúar.

„Ég hef komið inn á það áður að til lengri tíma er óheppilegt að Landsnet, sem hefur einkaleyfi á flutningi raforku og kerfisstjórnun, sé í eigu orkuvinnslufyrirtækja og dreifiveitna,“ sagði Þórdís Kolbrún í ávarpi sínu í morgun.

„Slíkt fyrirkomulag samræmist illa meginhugmyndum okkar um aðskilnað samkeppnisreksturs og grunnreksturs á orkumarkaði. Að sama skapi er slíkt fyrirkomulag almennt óheppilegt út frá orkuöryggi í landinu. Það er brýnt að hlutverk og ábyrgð aðila á orkumarkaði séu skýr og skarist ekki.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert