Félagsmenn VR hjá hópbifreiðafyrirtækjum og hjá yfir 20 hótelum og hótelkeðjum samþykktu verkfallsboðun í rafrænni kosningu. Niðurstaðan var kynnt nú fyrir skömmu, en 52,25% greiddu atkvæði með verkfallsaðgerðum.
Samkvæmt tilkynningu á vef VR voru á kjörskrá 959 félagsmenn VR og alls greiddu 578 þeirra atkvæði, eða 60,2%. 52,25% (302 atkvæði) samþykktu verkfallsaðgerðir en 45,33% (262 atkvæði) voru á móti. 2,42% (14 atkvæði) tóku ekki afstöðu.
Haft er eftir Ragnari Þór Ingólfssyni, formanni VR, að niðurstaðan komi sér ekki á óvart.
Að öllu óbreyttu munu félagsmenn VR í hópbifreiðafyrirtækjum á félagssvæði VR og í gistiþjónustu á höfuðborgarsvæðinu og í Hveragerði leggja niður störf 22. mars.