Endurspeglar óróa hjá Sjálfstæðisflokki

Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar.
Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar. Eggert Jóhannesson

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, ýjaði að því að Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, hafi forðast það að rugga bátnum innan þingflokksins með því að skipa Þórdísi Kolbrúnu R. Gylfadóttur, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, einnig dómsmálaráðherra.

„Kannski endurspeglar þetta að einhverju leyti óróann sem hefur skapast í þingflokki Sjálfstæðisflokksins þar sem einhverjir hafa væntanlega haft væntingar um að hreppa hnossið. Bjarni verður að svara fyrir það, en ég kem með þessa tilgátu,“ sagði Logi við mbl.is.

Þórdís tekur við embættinu af Sigríði Á. Andersen sem steig til hliðar í gær eftir úrskurð Mannréttindadómstóls Evrópu í fyrradag sem gerði athugasemdir við skipan dómara í Landsrétt. Logi segir það ágætt skref að fela Þórdísi dómsmálin.

„Þetta er auðvitað ágæt stjórnmálakona og ég óska henni góðs gengis í vandasömu hlutverki. Það er töluvert mikið að þurfa að stýra þessum tveimur mikilvægu ráðuneytum,“ sagði Logi.

Aðspurður hvað honum fyndist um stöðu Landsréttar, sem ákvað að fresta öllum sínum málum eftir úrskurð Mannréttindadómstóls Evrópu, sagði Logi mikilvægt að vanda til verka.

„Það þarf að koma því í rétt horf og gera þennan gríðarlega mikilvæga millidómstól starfhæfan. Hvernig á að gera það veltur miklu frekar á lögspekingum og sérfræðingum í stjórnskipunarrétti. Okkur þingmönnum er held ég hollt stundum að leita álits sérfræðinga og láta þá leiða okkur áfram, í staðinn fyrir að halda að við getum rekið hausinn ofan í vélarhlífina og fiktað í vélinni,“ sagði Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert