Óviss um að snúa aftur í embætti

Sigríður Andersen.
Sigríður Andersen. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég er þingmaður og eins og ég lýsti á blaðamannafundi í gær hef ég mínar skoðanir á skipan dómsmála almennt, ég mun ekkert láta af mínum skoðunum í þeim efnum og mun tjá þær með opinberum og gagnsæjum hætti,“ sagði Sigríður Á. Andersen meðal annars við fjölmiðla eftir að hún lét af embætti dómsmálaráðherra og yfirgaf í kjölfarið ríkisráðsfundinn sem nú stendur yfir á Bessastöðum.

Hún sagðist ekki ætla að verða nýjum ráðherra dómsmála, Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur sérstaklega innan handar við að leysa úr þeirri réttaróvissu sem talin er hafa skapast eftir að Mannréttindadómstóll Evrópu kvað upp dóm sinn á þriðjudag.

Sigríður sagði jafnframt að það væri henni ekki þungbært að víkja úr embætti dómsmálaráðherra og vildi meina að það væri einhver ímyndun og tilbúningur fjölmiðlamanna að stjórnmálamönnum þætti eitthvað sérstaklega „leiðinlegt“ að segja sig frá ráðherrastólum.

„Þetta er ekki erfitt, þetta eru bara stjórnmál,“ sagði Sigríður Á. Andersen, og bætti við að síðasti ríkisráðsfundur hennar, alla vega í bili, hefði verið notalegur, eins og þeir allir.

Hún segist ekki gera ráð fyrir einu eða neinu varðandi endurkomu í stól dómsmálaráðherra. „Það er allt óvíst í stjórnmálum, menn skulu ekki ganga að neinu vísu og það geri ég ekki heldur.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert