„Tel þetta langbestu niðurstöðuna“

Bjarni Benediktsson ræðir við fjölmiðla á Alþingi.
Bjarni Benediktsson ræðir við fjölmiðla á Alþingi. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég lít á þetta sem tímabundna ráðstöfun,“ sagði Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, um þá ákvörðun að Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir taki við sem dómsmálaráðherra í stað Sigríðar Á. Andersen sem steig til hliðar í gær.

Bjarni tilkynnti þetta eftir þingflokksfund Sjálfstæðisflokksins sem boðað var til með stuttum fyrirvara í dag. Hann ræddi þar við þingflokk sinn áður en hann hélt á ríkisráðsfund sem hefst nú klukkan 16.

„Við erum hér að bregðast við stöðu sem kom upp í gær. Það eru ráðstafanir sem fylgja í kjölfarið sem tengjast þingflokknum, við þurfum kannski að skipa aftur í nefndir í þinginu og slíkt,“ sagði Bjarni og greindi frá því að mikil sátt hafi verið um þessa ákvörðun í þingflokki Sjálfstæðisflokksins.

„Það var mikil sátt og ég held að þetta sé langbesta niðurstaðan enda er hún hugsuð til þess að skapa rými til þess að ákveða næstu skref. Maður hleypur ekki til og skipar í ráðherrastól á innan við sólarhring.“ sagði Bjarni.

Þórdís Kolbrún ræddi ekki við fjölmiðla að loknum þingflokksfundi en er nú á leið til Bessastaða á ríkisráðsfund. Hún er ferðamála,- iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og mun sinna því starfi áfram, auk dómsmálunum.

„Þórdís Kolbrún starfaði í þessu ráðuneyti. Hún er lögfræðingur og þekkir málaflokkana og kemur þess vegna vel undirbúin í ráðuneytið. Hún treystir sér vel í þetta verkefni og við treystum henni. Þetta mun fara bara mjög vel,“ sagði Bjarni.

Allt opið um endurkomu Sigríðar

Bjarni sagði að um tímabundna ráðstöfun væri að ræða. Sigríður Andersen sagðist í gær vera að stíga tímabundið til hliðar. Er þá opið fyrir því að hún komi að nýju inn í ríkisstjórnina?

„Ég sé ekki fram á að það gerist á næstu vikum, en síðar á kjörtímabilinu get ég vel séð það fyrir mér eins og aðrar breytingar. Hún er fullgildur þingmaður sem getur, að mínu áliti, starfað í stjórnarráðinu. Þær aðstæður hafa nú skapast að hún ákveður að stíga út úr ráðuneytinu og þá setjum við annan ráðherra inn. Hvort Sigríður Andersen fari aftur í ríkisstjórn síðar á kjörtímabilinu er mál sem ég get ekki svarað núna, en það er allt opið fyrir það,“ sagði Bjarni.

Bjarni sagði að ríkisstjórnin sýndi því skilning að svona verði brugðist við og ráðrúm gefið til þess að hægt væri að ráða ráðum enn frekar um varanlega skipun dómsmálaráðherra. Hann sagði ekki vera búið að ákveða framhaldið.

Þarf tíma til að greiða fyrir Landsrétti

Sigríður Andersen steig til hliðar vegna dóms Mannréttindadómstóls Evrópu þar sem skipun dómara í Landsrétt var sögð brot á mannréttindasáttmálanum. Landsréttur ákvað í kjölfarið að fresta öllum sínum málum ótímabundið. Hvað segir Bjarni um stöðu Landsréttar nú?

„Ég held að það sé mikilvægt að átta sig á því að það sem gerist næst vegna dóms MDE er að sumir hlutir verða að hafa sinn gang, eins og einstök dómsmál. Dómstólarnir eru að leggja það í hendur málsaðila. Önnur mál þurfa að skoðast í dómskerfinu og aðrir í ráðuneytinu. Það verður gert og við þurfum einhverja daga til þess,“ sagði Bjarni.

En hvernig standa málin í ríkisstjórninni er varðar Landsrétt?

„Vinna er hafin í ráðuneytinu og við ræddum það á ríkisstjórnarfundi í morgun hvaða atriði þurfa að komast til skoðunar þar.“

Aðeins rætt um möguleika á þessum dómi MDE

Ríkisstjórnin hefur talað um að dómur MDE hafi komið öllum á óvart. Nú þegar Landsréttur er óstarfhæfur í bili, var ekki undirbúin nein aðgerðaráætlun ef svo færi að dómur MDE færi svona?

„Við ræddum það og það voru til einhver minnisblöð, þar sem velt var upp möguleikum. En ég get fullyrt að þessi niðurstaða kom mönnum í opna skjöldu,“ sagði Bjarni.

Eftir að hafa rætt við fjölmiðla eftir þingflokksfund hélt Bjarni svo á fund ríkisráðs á Bessastöðum þar sem formlega verður gengið frá því að Þórdís taki við dómsmálaráðuneytinu.

Fréttin hefur verið uppfærð

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert