Dagurinn hvarf úr minni

Arnar Már Ólafsson lenti í hræðilegu hjólreiðaslysi árið 2015. Hann …
Arnar Már Ólafsson lenti í hræðilegu hjólreiðaslysi árið 2015. Hann segist vera heppinn að vera á lífi. mbl.is/Ásdís

Sautjándi september 2015 var dagurinn sem breytti lífi Arnars Más Ólafssonar, ferðamálafrömuðs hjá Íslensku fjallaleiðsögumönnum. Þennan sólríka septemberdag var hann á leið til vinnu á hjóli sínu þegar bifreið var ekið í veg fyrir hann. Tilviljunin ein réði því að hann lifði slysið af en mölbrotinn lá hann á gjörgæslu í mánuð þar sem líf hans hékk á bláþræði.

Eitt stórt spurningarmerki

„Þennan dag, 17. september 2015 var ég á leið í vinnuna. Ég var að koma niður Vatnsendahvarf og það keyrði bíll í veg fyrir mig og ég lendi í þessu hræðilega slysi. Hann var að beyja inn í Ögurhvarf og hann fór fyrir mig og ég dúndraðist á bílinn,“ segir Arnar Már og fer yfir staðreyndirnar því ekki man hann eftir þessu. Dagurinn er nefnilega horfinn úr minni Arnars Más.

Hvað er það næsta sem þú manst?

„Þegar ég opna augun á gjörgæslu. Ég sá mjög illa því augun voru svo bólgin. Ég sá konu í hvítum slopp sem horfir á mig og fer. Svo kemur konan mín, Steinunn Hildur Hauksdóttir. Ég gat ekki hreyft mig og ekki sagt neitt og var bara eitt spurningarmerki. Ég mundi ekkert eftir slysinu og ekki enn í dag. Heilinn er búinn að þurrka þetta út; búinn að ákveða að þetta sé ekki góð minning.“

Meiðslin voru mikil. „Ég braut á þriðja tug beina og vinstri öxlin fór í sundur á nokkrum stöðum og eins mjöðmin. Vinstri rifjaboginn mölbrotnaði. Öll rifbeinin vinstra megin tvíbrotna, nema það neðsta. Bæði frá bringubeini og frá hryggjarsúlunni,“ útskýrir hann og blaðamaður kemur varla upp orði.

Arnar Már lá í heilan mánuð á gjörgæslu þar sem …
Arnar Már lá í heilan mánuð á gjörgæslu þar sem hann var þrjár vikur í öndunarvél. Kona hans, Steinunn Hildur Hauksdóttir, stappaði í hann stálinu. Úr einkasafni.

Var aldrei hræddur

Hvað var það fyrsta sem þú hugsaðir?

„Hvað er ég að gera hérna? Af hverju er ég hér, hvað gerðist? Ég náði að hreyfa varirnar og mynda orðin: hvað gerðist? Konan mín var búin að undirbúa þetta augnablik mjög vel. Hún tjáði mér hvað hefði gerst og róaði mig strax niður. Hún sagði strax: „allt mun gróa. Þetta verður í lagi“. Ég var aldrei hræddur, ég var aldrei hræddur í gegnum allt ferlið. Alltaf rólegur og aldrei í vafa um að þetta myndi verða í lagi,“ segir hann.

„Þetta var mjög tvísýn barátta, í þrjár vikur í rauninni. Steinunn kom á hverjum morgni í óvissu um hvort ég væri lifandi. Ég fékk mjög heiftarlega lungnabólgu sem kom dálítið aftan að þeim því líkaminn sýndi góða súrefnismettun. Ég var í mjög góðu formi þarna sem hefur líklega bjargað lífi mínu. En þegar þeir átta sig á því hvað lungnabólgan var orðin slæm sögðu þeir konu minni að búa sig undir það versta; þeir voru ekki vissir um að ég myndi hafa það af,“ segir Arnar Már.

Þakklæti efst í huga

Spurður út í andlegu hliðina eftir slysið svarar Arnar Már: „Svona breytir manni.“

Hann hugsar sig um og segir svo: „Það sem mér er efst í huga er þakklæti. Ég er mjög þakklátur einstaklingur í dag. Ég nýt lífsins og ég upplifi sterkar að vera til. Ég nýt alls betur, hvort sem það er fjölskyldan, vinir, vinnan eða áhugamálin. Maður tekur til hjá sér ósjálfrátt, forgangsraðar á annan hátt. Fyrir slysið var ég mjög mikið í mörgu en nú einbeiti ég mér að færri hlutum en það er meiri dýpt. Það er eins og lífið hafi sprungið í loft upp og þegar bitarnir féllu niður, féllu þeir á nýja staði. Ég fyllist þakklæti á hverjum degi. Augnablikin verða kraftmeiri. Börnin, fjölskyldan, rómantíkin og vinskapurinn er allt kraftmeira, og í raun allt sem ég tek mér fyrir hendur. Það er erfitt að lýsa því en það er allt skýrara,“ segir hann.

Hjólreiðafólk komið til að vera

Arnar Már segist vita að allt hjólasamfélagið fylgdist vel með honum í batanum. „Þetta var í miðri hjólasprengingu og það fylgdust allir með þessu. Þetta var kannski ekki fyrsta slysið en þetta var mjög sviplegt slys sem hafði áhrif á marga,“ segir Arnar Már og nefnir að bæði hjólreiðafólk sem og ökumenn hafi jafnvel farið að hugsa sinn gang.

Arnar Már er kominn á fulla ferð aftur í hjólreiðarnar …
Arnar Már er kominn á fulla ferð aftur í hjólreiðarnar þótt hann hafi ekki sömu getu og áður. Úr einkasafni.

„Þetta er raunverulegt ástand sem myndast þegar svona margir einstaklingar fara á göturnar og hjólastíga. Það hafa allir rétt á að vera þarna og það þurfa allir að taka meira tillit, hjólafólk, gangandi vegfarendur og ökumenn. Fólk er óvant þessu og þetta tekur tíma, hjólamenningin hér er enn ung. Erlendis tekur fólk meira tillit,“ segir hann.

„Það er ekki nóg fyrir ökumenn að horfa eftir öðrum bílum, þeir þurfa líka að leita eftir hjólum.“

Viðtalið í heild er í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert