„Líka hægt að brjóta glerþakið að ofan“

Stjórn UAK skipa þær (f.v.) Sigyn Jónsdóttir, Kolfinna Tómasdóttir, Auður …
Stjórn UAK skipa þær (f.v.) Sigyn Jónsdóttir, Kolfinna Tómasdóttir, Auður Albertsdóttir Anna Berglind Jónsdóttir, Ásbjörg Einarsdóttir og Snæfríður Jónsdóttir. Ljósmynd/Ingvi Ólafsson

Þ er alltaf verið  tala um sprunguna í glerþakinu en við viljum bara að það sé ekkert glerþak,“ segir Auður Albertsdóttir kynningarstjóri Ungra athafnakvenna, UAK. Uppselt er á viðburð þeirra, UAK daginn sem haldinn er í dag og félagið vex ört. Auður segir að það sýni svart á hvítu að jafnrétti kynjanna hafi ekki verið náð.

„Það er oft sagt að það sé hvergi betra að vera kona en á Íslandi en samt er þessi áhugi og þessi þörf. Það er hægt að tala í allan dag um dæmi um misrétti kynjanna á Íslandi og hvað því veldur en það sýnir sig að það er þörf fyrir okkur og það er þörf fyrir svona umræðu. Misréttið á sér grunn í menningunni og hún breytist ekki nema við tölum um það.“

Ósýnileg hindrun sem „þarf að brjóta“

Yfirskrift UAK dagsins er „Brotið glerþak til frambúðar“. Um það segir Auður: „Glerþakið er þessi ósýnilega hindrun sem getur aftrað konum í atvinnulífinu og almennt séð líka í lífinu. Það þarf að brjóta glerþakið. Ísland er komið ótrúlega langt í jafnréttismálum en samt er til dæmis engin kona forstjóri fyrirtækis í kauphöllinni.”

Auður bendir á að fólk í stjórnunarstöðum geti gert sitt til að brjóta hið umtalaða glerþak. „Það sem við viljum líka koma á framfæri til stjórnenda í atvinnulífinu og fleiri að það er líka hægt að brjóta glerþakið að ofan. Þeir sem standa fyrir ofan glerþakið geta hjálpað okkur að brjóta það þannig að það er hægt að brjóta það frá báðum hliðum.”

Því vilja Ungar athafnakonur einmitt vekja athygli á í dag. „Við erum oft svolítið bara að tala við hvor aðra. Tilgangurinn með deginum er því líka að vekja athygli fólks á stöðu ungra kvenna og þá sérstaklega í viðskiptalífinu. Það er til dæmis mjög mikill munur á stöðu kvenna í stjórnmálum á Íslandi og stöðu kvenna í viðskiptalífi. Við viljum líka bara vekja athygli á Ungum athafnakonum því þetta er rosalega sterkur hópur.“

Byltingar geta valdið bakslögum

Í dag verður meðal annars panelumræða um byltingar og bakslög sem Auður stýrir. Spurð hvort þær jafnréttisbyltingar sem hafi skekið Ísland og heiminn allan undanfarin ár hafi varanleg áhrif segir hún:

„Það er frægt í byltingum að þær geta valdið bakslögum og orðið þannig andsnúnar tilganginum. Me Too er auðvitað búin að leiða af sér margt gott en eftir þá byltingu var til dæmis gerð rannsókn í Bandaríkjunum sem sýndi að karlmenn vilja síður þjálfa ungar konur og vinan einir með þeim. Það er til dæmis bakslag sem skemmir fyrir.“

Auður Albertsdóttir, kynningarstýra UAK.
Auður Albertsdóttir, kynningarstýra UAK. Ljósmynd/UAK

Í panelumræðunni taka til máls Adda Þóreyjardóttir Smáradóttir, upphafskona Brjóstabyltingarinnar á Íslandi, Þorsteinn V. Einarsson, upphafsmaður Karlmennskunnar, Silja Bára Ómarsdóttir, stjórnmálafræðingur og Guðrún Ögmundsdóttir fyrrum alþingiskona. 

„Við viljum heyra hvað byltingarleiðtogarnir, Adda og Þorseinn voru að hugsa, en svo erum við með Silju Báru sem er með fræðilegan vinkil á málið þar sem hún hefur sérhæft sig í þessum bakslögum. Svo erum við með Guðrúnu Ögmundsdóttir sem var uppi þegar konur fóru fyrst á þing því það er svo stutt síðan og það var auðvitað líka bylting.

Femínismi hefur öðlast jákvæðan blæ

Aðspurð segir Auður að margt sé búið að breytast síðan félagið var stofnað árið 2014. „Það er klárlega margt búið að breytast og það er komin upp meiri umræða. Margar okkar þekkja það að fyrir nokkrum árum var femínismi neikvætt orð en það er ekki þannig lengur. Við finnum fyrir miklum áhuga og fáum stærri og stærri hóp á hverju ári. Sömuleiðis finnum við fyrir meiri áhuga frá utanaðkomandi aðilum um að vera í samstarfi við okkur og fá að koma og tala á viðburðum hjá okkur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert