Þúsundir vildu taka til í Færeyjum

Ein af myndakindunum að störfum í Færeyjum sumarið 2016.
Ein af myndakindunum að störfum í Færeyjum sumarið 2016.

Færeyingar létu þau boð út ganga í vetur, að til stæði að loka helstu ferðamannastöðum eyjanna eina helgi í lok apríl og bjóða sjálfboðaliðum að koma og hjálpa til við að laga þar til og búa staðina undir sumarið. Það er óhætt að segja að viðbrögðin hafi komið þægilega á óvart.

„Umsóknirnar streymdu að frá öllum heimshornum: Evrópu, Ástralíu, Kína, Ameríku. Við fengum um 3.500 fyrirspurnir en getum aðeins tekið á móti 100 sjálfboðaliðum,“ segir Guðrið Højgaard, framkvæmdastjóri færeysku ferðamálastofunnar. „Þetta kom okkur mjög á óvart. Og þegar fólk frétti að búið væri að fylla hópinn nú spurði það hvort hægt væri að skrá sig á næstu árum. Við gætum verið fullbókuð til ársins 2050.“

Sjálfboðaliðarnir greiða sjálfir fyrir ferð sína til Færeyja en þar er þeim séð fyrir fæði og gistingu helgina 26. til 28. apríl. Guðrið segir, að umsóknir hafi borist frá fólki á öllum aldri en oftast er það ungt fólk, sem ferðast til landa til að vinna sjálfboðaliðastörf af þessu tagi. Greinilegt sé, að margir hafi áhuga á að heimsækja eyjarnar.

Erlendum ferðamönnum hefur farið fjölgandi í Færeyjum á undanförnum árum eða um 10% á ári að jafnaði og voru í fyrra um 100 þúsund talsins, samkvæmt upplýsingum frá færeysku ferðamálastofnunni. Guðrið segir, að þótt eyjaskeggjar vilji taka vel á móti ferðamönnum kæri þeir sig samt ekki um að þeim fjölgi um of og ljóst sé, að fjölförnustu staðirnir hafi látið nokkuð á sjá. Þess vegna hafi vaknað þessi hugmynd, að fá sjálfboðaliða til að hjálpa heimamönnum, að halda þeim við.

Færeyingar létu þau boð út ganga í vetur, að til …
Færeyingar létu þau boð út ganga í vetur, að til stæði að loka helstu ferðamannastöðum eyjanna eina helgi í lok apríl og bjóða sjálfboðaliðum að koma og hjálpa til við að laga þar til og búa staðina undir sumarið. Ljósmynd/Visit Faroe islands

Verðlaunaherferðir

En hvort sem heimamönnum líkar betur eða verr hefur áhugi á Færeyjum aukist mikið á síðustu árum, ekki síst vegna óvenjulegra markaðsherferða Guðrið og hennar fólks, sem hafa vakið athygli fjölmiðla víða um heim. Skemmst er að minnast „kindavélanna“ svonefndu, Sheep View 360, vorið 2016 þegar vefmyndavélum var komið fyrir á fimm ám, sem gengu um í náttúrunni og bitu gras og hægt var að fylgjast með gegnum netið. Færeyingar sögðu þá, að með þessu væri bæði verið að kynna Færeyjar og þrýsta á tæknifyrirtækið Google, að setja eyjarnar inn í Street View.

Og þeim tókst hvort tveggja því síðar sama ár komu útsendarar Google til Færeyja með 360 gráðu myndavélar sem hafa síðan staðið heimamönnum og ferðamönnum til boða við að kortleggja götur og stíga í eyjunum. Árið eftir fengu kindavélarnar gullna ljónið á auglýsingahátíð í Cannes fyrir bestu ferðamálamarkaðsherferðina. Kostnaðurinn við herferðina var um það bil 20 milljónir íslenskra króna, en sérfræðingar áætluðu að verðmæti átaksins væri jafnvirði um 5 milljarða króna.

Í fyrra fékk svo önnur færeysk auglýsingaherferð, Faroe Islands Translate, bronsljónið á sömu hátíð þar sem snúið var upp á þýðingavél Google. Þá gat fólk sent setningar á eigin tungumáli með tölvupósti og fékk til baka myndskeið þar sem Færeyingar þýddu þessar setningar á færeysku. Alls bárust 1,3 milljónir slíkra óska frá 181 landi og nærri helmingur Færeyinga tók þátt í þýðingunum. Sérfræðingar áætluðu, að verðmæti þessarar markaðsherferðar næmi um 26 milljónum evra, nærri 3,6 milljarða króna. Hægt er að skoða þessi myndskeið á vefslóðinni www.faroeislandstranslate.com.

Það hefur heldur ekki dregið úr áhuga á Færeyjum, að nú í febrúar fékk veitingastaðurinn Koks, við Leynavatn á Straumey, aðra Michelinstjörnu.

Kirkjubær á Straumey, skammt frá Þórshöfn er einn mest sótti …
Kirkjubær á Straumey, skammt frá Þórshöfn er einn mest sótti ferðamannastaður í Færeyjum. mbl.is/Einar Falur Ingólfsson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert