Aðgerðahópurinn fundar í dag

Flosi Eiríksson, framkvæmdastjóri SGS, lengst til hægri á fundi með …
Flosi Eiríksson, framkvæmdastjóri SGS, lengst til hægri á fundi með SA áður en viðræðunum var slitið. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fundað verður í aðgerðahópi Starfsgreinasambandsins (SGS) í dag klukkan 14:00 að sögn Flosa Eiríkssonar, framkvæmdastjóra sambandsins, en SGS sleit viðræðum sínum við Samtök atvinnulífsins í gær. 

„Þá munum við fara yfir stöðuna og byrja að teikna upp tímalínu fyrir mögulegar aðgerðir sem verða þá lagðar fyrir samninganefnd Starfsgreinasambandsins næstkomandi mánudag,“ segir Flosi enn fremur.

„Síðan þurfa menn að fara hver heim í sitt félag og fá samþykki sinnar samninganefndar til að boða til verkfalla og síðan þarf að kjósa um það í hverju einstöku félagi.“

Hafa verði í huga að valdið til þess að fara í verkfall liggi hjá hverju og einu félagi. „En ég geri nú frekar ráð fyrir að aðgerðahópurinn leggi þetta upp sem verkfall allra félagsmanna. Það séu ekki einstakir hópar. En við ætlum að ræða það sérstaklega í dag.“

Spurður hvort ríkissáttasemjari hafi boðað til funda í kjaradeilunni, en embættinu ber að gera það á hálfs mánaðar fresti að minnsta kosti, segir Flosi að það hafi ekki verið gert. „Vonandi ber okkur gæfa til þess að tala eitthvað saman áður en kemur til aðgerða.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert