Engin „bráð hætta á ferð“

Varmárskóli í Mosfellsbæ.
Varmárskóli í Mosfellsbæ. mbl.is/Eyþór Árnason

Umhverfissvið Mosfellsbæjar undirbýr tillögu til bæjarráðs um fyrirkomulag heildarúttektar á húsnæði Varmárskóla vegna gruns um myglu í kjölfar tillögu áheyrnarfulltrúa Viðreisnar. „Unnið er að því að sú tillaga verði lögð fyrir bæjarráð núna á fimmtudaginn,“ segir Arnar Jónsson, forstöðumaður þjónustu- og samskiptadeildar Mosfellsbæjar.

Bæði foreldrafélag Varmárskóla og fulltrúar Viðreisnar óskuðu eftir heildarúttekt á skólahúsnæði Varmárskóla á fundi bæjarstjórnar 14. mars. Erindinu var vísað til umsagnar framkvæmdastjóra umhverfissviðs og mun sú umsögn berast bæjarráði svo fljótt sem auðið er. 

Verkfræðistofan Efla gerði sjónræna skoðun og rakamælingu á skólanum fyrst í júní árið 2017 sem er „fyrsta skref í nánari úttekt eða mælingum“. Þar kemur fram að talsvert er um rakaskemmdir í skólanum. Önnur skoðun var gerð ári seinna árið 2018 sem fólst meðal annars í sýnatöku á tilteknum stöðum þar sem farið var í framkvæmdir. EFLA skilað lokaúttekt 22. febrúar. Þar kemur fram að úrbætur hafi verið gerðar í samræmi við tillögur EFLU.   

Leki víða í skólanum   

Í minnisblaði EFLU frá 2017 kemur meðal annars fram að leki er framan við bókasafn, leki á gangi milli tveggja skólastofa, lekaummerki í loftaplötum, sjáanleg rakaummerki á vegg, raki í lofti í ræstikompu, raki mælist undir dúk á stóru svæði á stofu 216 og á fleiri stöðum. 

„Mælt er með að gerð verði ítarlegri skoðun á húsnæðinu þar sem oftast eru vandamálin ekki sýnileg og ekki útilokað að umfang skemmda sé töluvert víðtækara en raun ber vitni. Sýnataka getur verið nauðsynleg til að meta hversu umfangsmiklar aðgerðir þurfa að vera þegar kemur að hreinsun rakaskemmdra svæða.“ Þetta segir í minnisblaði Eflu frá 2017.

EFLA gat ekki mælt með notkun á rýminu

Farið var í viðgerðir og endurbætur á nokkrum stöðum í skólahúsnæðinu sem komu fram í minnisblaðinu en ekki á öllum atriðunum. Í þeim framkvæmdum voru tekin fjögur sýni til að skoða örveruvöxt og reyndust þær hafa náð sér á strik á fjórum stöðum af fimm. 

Í fyrstu úttekt kom ein skólastofa númer 216 sérstaklega illa út. Raki mældist undir dúk á nokkuð stóru svæði framan við útvegg og við vegg við eldhúss. Rakinn mælist um það bil 1 metra frá útvegg og að miðju herbergi.  

„Grunur er um myglu og rakasæknar örverur undir dúk við þessar aðstæður. EFLA getur ekki mælt með notkun á rýmum sem þessum þegar ekki er vitað hvert ástand þeirra er með fullri vissu.“ Þetta kemur fram í fyrsta minnisblaðinu. 

Sveppaþræðir í gólfi og nemendur í kennslustofu

„Okkar mat var að það hafi ekki verið bráð hætta á ferð,“ segir Arnar spurður hvers vegna kennslu var haldið áfram í stofu 216 þrátt fyrir að grunur væri um myglu eins og kemur fram á minnisblaðinu. 

Í júlí og ágúst 2017 var farið í aðgerðir utanhúss við stofu 216. Þegar viðgerðir hófust voru tekin sýni úr gólfi og hafði örveruvöxtur náð sér á strik, sveppaþræðir voru undir gólfefni og komnir u.þ.b. 11 mm niður í gólfílögn. Á meðan framkvæmdum stóð var kennslu haldið áfram í skólastofunni. 

Þeim framkvæmdum, sem ákveðið var að fara í og sem komu fram í úttekt EFLU, er lokið utan frágangs á gólfefnum á einum stað. Foreldrum var ekki kynnt sérstaklega um þær viðgerðir sem gerðar voru á skólahúsnæðinu eftir skýrslu EFLU. 

Ekki hefðbundið að kynna foreldrum viðhaldsáætlun

Atriði úr sjónskoðun Eflu urðu hluti af viðhaldsáætlun Varmárskóla fyrir árið 2018 og var hún kynnt starfsmönnum skólans. Ekki er hefðbundið að kynna foreldrum viðhaldsáætlun skólahúsnæðis, segir Arnar. 

„Það sem eflaust mætti gera betur er að setja saman upplýsingar fyrir hinn almenna íbúa og gera það aðgengilegt,“ segir Linda spurð hvort ekki sé betra að upplýsa foreldra um framkvæmdir á skólahúsnæðinu eftir skoðun EFLU.  

Þau benda bæði á að skólinn sé með þeim elstu og hann fái viðhald í samræmi við það.   

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert